133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:59]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er reiðubúinn til þess að vera hér á löngum fundum. En ég set það skilyrði að Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sé hér með mér. (Gripið fram í.)

Forseti. Hvar var Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í gær? (Gripið fram í.) Hún var ekki á þeim fundi sem hér stóð til klukkan 2.06. Það var þannig. Þar var forseti þingsins ekki heldur og þar var Sigurður Kári Kristjánsson, formaður hv. menntamálanefndar, ekki heldur. Þar var menntamálaráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, ekki heldur.

Forseti. Þetta varðar ekki fundarstjórn forseta heldur orð síðasta ræðumanns. Fundarstjórn forseta varða hins vegar þeir möguleikar sem eru á því að koma þessu máli þannig fyrir að það þvælist ekki fyrir öðrum merkum málum og að þinghaldið styttist.

Í umræðunum hefur verið bent á leið til þess sem er sú að gildistökuákvæðinu verði breytt og stjórnarandstaðan hefur gefið til kynna að hún muni geta sætt sig við slíka afgreiðslu þó að hún sé að sjálfsögðu á móti málinu. Ég hvet forseta til að kanna þann möguleika betur.

Ég vil benda honum á fordæmi í því efni sem er afgreiðsla vatnalaganna svokölluðu, hér fyrr í þinginu. En þá var það þannig að leiðtogi stjórnarinnar og talsmaður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í því máli var Valgerður Sverrisdóttir, sem er að góðu kunn, en ekki einkum af miklum sveigjanleika eða að gefa pólitískum andstæðingum sínum mikið svigrúm. En hún gerði það í þessu efni og má hrósa henni fyrir það.

Annað dæmi var rifjað upp sem forseti kynni að vilja nýta sér. Það er það tilboð sem menn rámar að vísu illa í, um fjölmiðlalögin hér fyrr á kjörtímabilinu, að farið hafði verið fram á það við stjórnarandstöðuna að hún féllist á að láta af snarpri andstöðu sinni um hríð gegn þeim lögum ef ákveðnum ákvæðum í því yrði frestað, gildistöku þeirra, fram yfir næstu kosningar. Það voru þá tvö og þrjú ár og meiri hluti kjörtímabilsins var eftir. Nú eru þetta nokkrir mánuðir, nokkrar vikur frá hinni algeru gildistöku þeirra laga.

Það er Þorgerður K. Gunnarsdóttir, hæstv. menntamálaráðherra, sem er leiðtogi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í þessu máli, sem nú er um að ræða. Það ber nýrra við að hún er orðin ósveigjanlegri en sá sem var forustumaður stjórnarliða í fjölmiðlalögunum, hinn sveigjanlegi, mildi og (Forseti hringir.) og ágæti og vísi foringi …

(Forseti (SP): Hv. þingmanni ber að ræða um fundarstjórn forseta.)

Hann er að því. Hann er að benda forseta á leiðir út úr vandanum.

(Forseti (SP): Ég á erfitt með að heyra það.)

Forseti. Ég bið um að fá að klára ræðu mína. Það skal taka þær fimm sekúndur sem ég á hér eftir.

(Forseti (SP): Þingmaður heldur áfram ræðu sinni.)

Þakka þér fyrir forseti.

En það var hinn ágæti, mildi og sveigjanlegi foringi Davíð Oddsson, sem menn minnast nú með hlýju og hugnæmum þokka hér á þinginu þegar horft er á núverandi foringja stjórnarliðsins.