133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[11:07]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

(JBjarn: Nú kemur …) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Nú verður greitt fyrir þingstörfunum.) (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta til þess að þakka hæstv. forseta fyrir gríðarlegt þolgæði og aðdáunarverða þolinmæði gagnvart hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Þeir hafa nú á þessu kjörtímabili rætt um málefni Ríkisútvarpsins í 120 klukkustundir og rætt hér um störf þingsins og fundarstjórn forseta meira og minna alla þessa viku. Hæstv. forseti hefur sýnt mikla lipurð við stjórn þingsins þannig að það ber að þakka sérstaklega fyrir það.

Þessi framkoma hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar er auðvitað þinginu til minnkunar og þeim mun aðdáunarverðari er afstaða og stjórn hæstv. forseta. Það er hlegið, hæstv. forseti, að hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar og það er ekki bara hlegið, það er tröllhlegið að þingmönnum stjórnarandstöðunnar úti um allt land. (Gripið fram í.) Og hvers lags framkoma er þetta, hæstv. forseti? Nú er mál að linni, nú er nefnilega mál að linni, hæstv. forseti, þessari stóru brandarakeppni stjórnarandstöðunnar er lokið. Nú er kominn tími til að fara að ræða þessi mál efnislega og það er full ástæða til að ræða þau efnislega. (SigurjÞ: Já, hvað …?)

Menn hafa gert mikið úr því hver sé stefna Framsóknarflokksins (SigurjÞ: Einmitt.) í þessu máli (Gripið fram í: Já.) og ég skal fara yfir það í umræðunni undir viðkomandi dagskrárlið. Ég get t.d. lesið upp úr flokksþingssamþykktum Framsóknarflokksins frá árinu 2005 (Gripið fram í: Hlutafélaga…?) sem ekki nokkur hv. þingmaður hér inni hefur áhuga á af því að það hentar ekki málflutningum. (Gripið fram í.)

Það væri hins vegar aðdáunarvert að fara yfir stefnu stjórnarandstöðunnar, fara t.d. yfir skoðanir hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Hverjar skyldu þær vera? Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að það sé verið að einkavæða Ríkisútvarpið. Á sama tíma kemur aðalgúrú Samfylkingarinnar í menntamálum og talsmaður Samfylkingarinnar í menningarmálum (Gripið fram í.) og segir að það sé verið að ríkisvæða Ríkisútvarpið. (Gripið fram í: Varaformaður …) Svo kemur auðvitað (Forseti hringir.) varaformaðurinn, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, og segir að það sé verið að (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) hlutafélagavæða útvarpið (Gripið fram í.) og nauðsyn á því. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa hljóð hér í salnum.)

Hæstv. forseti. ...

(Forseti (SP): Svona frammíköll ganga ekki. Forseti vill líka benda hv. ræðumanni á það að honum ber að ræða um fundarstjórn forseta …)

Já, hæstv. forseti, ég …

(Forseti (SP): … en ekki um efni frumvarpsins sem er á dagskrá hér á eftir.)

Hæstv. forseti. Ég hef ítrekað vikið að fundarstjórn forseta í ræðu minni eins og fram hefur komið og þakkað henni sérstaklega fyrir skelegga fundarstjórn. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Tímanum er lokið.)