133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:27]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu málefni Byrgisins. Félagsmálanefnd og fjárlaganefnd hafa nú í tvo daga fjallað um þetta mál og þó að þeirri umræðu sé ekki lokið ætla ég að öll kurl í málinu séu komin til grafar, það liggi alveg ljóst fyrir hvernig þetta mál er vaxið.

Ég vil taka það fram að frá upphafi þegar greiðslur til Byrgisins komu fyrst inn í fjárlög voru þær á vegum félagsmálaráðuneytisins og hafa aldrei verið annars staðar. Þær komu fyrst til hreinlega á grundvelli mannúðarmáls, vegna útivistar heimilislauss fólks, að reyna að hjálpa því. Þannig hefur það alltaf verið.

Þegar við förum yfir þessi mál er alveg ljóst og þarf ekkert að fara í grafgötur með það að hér hafa orðið ákveðin stjórnsýslumistök. Þau mistök má eingöngu rekja til þess að menn hafa farið mjög óvarlega. Allar reglur og öll lög eru mjög skýr, IV. kafli fjárreiðulagana, 30. gr., sem segir til um framkvæmd fjárlaganna segir þetta nákvæmlega. (Gripið fram í.) Öllum má vera ljóst að framkvæmd fjárlaga er alltaf á vegum ráðuneytanna. Þau bera skýlausa ábyrgð á framkvæmdinni, alveg sama hvernig fjárreiðurnar eru til komnar.

Fyrir fimm árum var á vegum fjárlaganefndar og með aðstoð fjármálaráðuneytisins gerð krafa til þess að öll ráðuneytin settu sér skýrar og afmarkaðar reglur um hvaða verklag skyldi viðhaft við úthlutun styrkja. Mörg ráðuneyti hafa farið eftir því. Það er mjög nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að þarna var þetta ekki gert og menn fóru mjög óvarlega. Sú ályktun sem við getum dregið af því máli er að við verðum að læra að það borgar sig og þær kröfur verða alltaf gerðar af þjóðinni og skattborgurunum (Forseti hringir.) að menn vandi sig og passi sig mjög vel þegar um svona mál er að ræða.