133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:40]
Hlusta

Helga Þorbergsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Væntingar þjóðarinnar til stjórnmálamanna eru ekki síst þær að þeir vinni að því að móta reglur samfélagsins með þeim hætti að hver og einn fái notið kosta sinna í eigin þágu og samfélagsins og hafi færi á að skapa sér og sínum gott og innihaldsríkt líf.

Heilbrigðisþjónustan er einn grunnþátta í þjónustu við almenning. Hlutverk hennar er ekki síst að fjarlægja svo sem kostur er og/eða koma í veg fyrir hindranir sem tengjast sjúkdómum sem koma í veg fyrir að fólk geti nýtt tækifæri sín og notið kosta sinna.

Það skiptir því miklu að ríkar kröfur séu gerðar til þeirra sem treyst er til að meðhöndla sjúkt fólk af hvaða toga sem sjúkdómar eru. Það liggur í hlutarins eðli að kröfurnar verða að vera faglegar. Jafnframt er sjálfsagt að krefjast þess að það fé sem varið er til málaflokksins sé vel nýtt og gagnist þeim skjólstæðingum sem það er ætlað. Fé til þjónustu er ekki ótakmarkað og hér sem annars staðar gildir að það fé sem varið er til tiltekinnar starfsemi verður ekki nýtt á öðrum vettvangi.

Málefni Byrgisins hafa verið hér til umfjöllunar og eru mér tilefni þessara upphafsorða. Ekki liggur fyrir ný úttekt á faglegri starfsemi Byrgisins en greinargerð Ríkisendurskoðunar um fjármál stofnunarinnar sýnir ótvírætt að þar var ekki rétt að verki staðið.

Það sem gera þarf í kjölfarið er að nýta reynsluna og læra af henni. Svo virðist sem fastari og skýrari reglur um kröfur sem uppfylla þarf áður en veitt er leyfi og fjármagn til að reka stofnanir sem sinna sjúku fólki og jafnframt þarf að vera skýrt hvaða þjónustu verið er að greiða fyrir. Verklag innan ráðuneyta og ábyrgð þarf líka að skoða.

Hvað varðar skjólstæðinga Byrgisins og aðra sem glíma við vandamál af líkum toga, þá ber að leggja áherslu á að það fólk fái meðferð og þjónustu við hæfi svo það, eins og aðrir, fái notið kosta sinna.