133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég endurtek að málið er alvarlegt og ábyrgð félagsmálaráðherra liggur fyrir. (Gripið fram í.) Þær spurningar sem lagðar hafa verið fram í þessari umræðu eru allar til skoðunar og afgreiðslu í félagsmálaráðuneytinu.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur ekki skotið sér undan neinni ábyrgð í þessu máli. Hann ber pólitíska ábyrgð á því frumkvæði að biðja Ríkisendurskoðun að fara í saumana á fjárreiðum Byrgisins. Hann ber líka ábyrgð á því að málið var upplýst. Hann ber pólitíska ábyrgð á því að stöðva opinberar styrkveitingar til Byrgisins. Hann ber líka ábyrgð á þeim lausnum sem unnið er að núna í samvinnu við ýmsa fagaðila, þar á meðal velferðarsvið Reykjavíkurborgar.

Nú þarf að læra af þessum mistökum og bæta misfellur. Vinna er þegar hafin að því markmiði undir forustu hæstv. félagsmálaráðherra Magnúsar Stefánssonar. (Gripið fram í: Ráðherra ber lagalega ábyrgð á klúðrinu.)