133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:06]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Herra forseti. Það var þess virði að bíða eftir því að röðin kæmi að Kjartani Ólafssyni því að hann féll nákvæmlega í þá gildru sem ég lagði fyrir hann. Hann er að viðurkenna það hér að hann sé sáttur við að réttindi og þar af leiðandi kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins verði skert eins og gerist óhjákvæmilega með frumvarpinu. Það dugar ekki að vísa í fyrri frumvörp eða lagasetningar eins og til dæmis Matís ohf. því að þar var illa gert við starfsmenn. Það er akkúrat málið. En hér er þetta komið frá enn einum nefndarmanninum, að vísivitandi tekur hann þátt í því að skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Hins vegar, herra forseti, þætti mér afskaplega vænt um, af því að hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur setið í menntamálanefnd og þar af leiðandi væntanlega hitt 150 gesti o.s.frv., að hann svari síðari spurningunni: Er það vísvitandi gert hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að undanþiggja fjármagnstekjuskattsgreiðendur (Gripið fram í.) sem eru eingöngu með þær tekjur, þ.e. að undanþiggja þá nefskatti, herra forseti?