133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:09]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þegar hv. þm. Kjartan Ólafsson tekur hér til máls verða menn að minnast þess að hann er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menntamálanefnd. Þess vegna er meiri þungi í því sem hann segir en hjá þeim þingmönnum sem hér tala af hálfu stjórnarliðsins utan menntamálanefndar.

Kjartan Ólafsson sagði tvennt mjög merkilegt í tiltölulega stuttri ræðu. Annars vegar gekk Kjartan í þessari ræðu í sölunefndina. Hann er fjórði maður í sölunefnd Sjálfstæðisflokksins, sölunefnd ríkiseigna og Ríkisútvarpsins, vegna þess að hann sagði að það væri ekki sjálfsagt að ríkið ætti að reka stofnun eins og Ríkisútvarpið. Hann spurði, eins og hefur verið spurt hér fram og aftur í kringum Ríkisútvarpið af hálfu öfgamanna af frjálshyggjuvæng: Á ekki ríkið alveg eins að gefa út dagblað?

Ég sakna þess eins að Kjartan skuli ekki hafa verið með þeim hv. þingmönnum Pétri Blöndal, Sigurði Kára Kristjánssyni og Birgi Ármannssyni á tillögunni um að selja Ríkisútvarpið. En hann er greinilega kominn í þann hóp og það væri ágætt ef hann staðfesti það hér enn frekar á eftir.

Hitt sem Kjartan Ólafsson sagði — og það kemur þessari umræðu kannski mjög nákvæmlega og miklu meira við — það var þetta: Hann sagði að það gæti vel verið að þetta frumvarp væri þannig úr garði gert að einhver atriði þess gæti þurft að bæta eftir gegnumferð hjá ESA. Hann sagði það. Það er hér vottfest í þingtíðindum.

Félagi hans, formaður menntamálnefndar, sagði í gær í svari við fyrirspurn frá mér að það væri hafið yfir allan vafa, með leyfi forseta, „hafið yfir allan vafa“ — allan vafa, (Gripið fram í.) ekki eðlilegan vafa eða þann vafa sem menn gætu svona kannski gert ráð fyrir — heldur allan vafa að þetta frumvarp stæðist bæði samkeppnisrétt íslenskan og Evrópureglur. Hann sagði að stjórnin væri á þurru landi með þetta frumvarp.

Nú kemur í ljós að það land er ekki þurrara en svo að í því eru flóar og fen því að Kjartan Ólafsson sem er félagi Sigurðar Kára Kristjánssonar í þessari nefnd — og atkvæði hans réð úrslitum við að taka málið út úr nefndinni — segir að það geti vel verið að einhverjum efnisatriðum þurfi að breyta hér (Forseti hringir.) eftir að EES hefur fjallað um frumvarpið sem orðið sé að lögum.

Ég biðst afsökunar, forseti, að hafa talað hér lengur en til stóð en það er vegna þess að klukkan er nokkuð hvikul.

(Forseti (JónK): Það er meðtekið og afsakað.)