133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:30]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég hafði lokið við að fara yfir tvö atriði nánast, eða málefni öllu heldur, sem ég ákvað að tala um í þessari umræðu, annars vegar um útvarpsþjónustu í almannaþágu og hins vegar um þennan nefskatt sem hér hefur birst í þessu frumvarpi.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um nefskattinn en ég er hræddur um að ég hafi mismælt mig nokkrum sinnum þegar ég var að tala um þá sem borga fjármagnstekjuskatt. Ég átti auðvitað við að þeir sem hafa einungis tekjur af fjármagni virðast njóta sérstaks dálætis þeirra sem flytja þetta mál (Gripið fram í: Kjartan Ólafsson.) eins og m.a. Kjartans Ólafssonar eins og hér er kallað fram í. Þeir munu verða skattlausir og verður létt af þeim þeim álögum sem þeir hafa haft af því að borga útvarpsgjald. (Gripið fram í.) Þeir munu horfa á í boði hinna sem borga skattinn sem er auðvitað ekki sanngjarnt. Ég vildi koma að þessu, hæstv. forseti, vegna þess að þarna hafði ég mismælt mig í ræðunni og víst oftar en einu sinni eftir því sem mér er sagt og mér þykir það leiðinlegt.

Ég ætla að ræða pínulítið um það hvernig kaupin gerast á eyrinni í helmingaskiptastjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Mér sýnist þetta mál um Ríkisútvarpið dæmi um það hvernig svona helmingaskipti geta leitt flokka sem lengi hafa verið við völd út í það að snúa grimmilega upp á lýðræðið í landinu.

Þeir hafa hér ýmsir, og alveg sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra og reyndar fleiri, margoft gert athugasemdir við það að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar haldi hér langar ræður og komi í veg fyrir að lýðræðið hafi sinn gang. En hvers lags lýðræði er það þegar menn fá niðurstöðuna fram með því að gera helmingaskiptasáttmála og beygja alla þingmenn sína undir það, óháð því hvernig viðkomandi flokkur hefur gert samþykktir sínar?

Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað gert samþykktir um Ríkisútvarpið og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór vel yfir það, og ég minntist á það hér áðan, þar sem hann las upp allar þær samþykktir. Mér fannst hann rökstyðja mál sitt vel. Hann sagði sem sagt að aldrei hefði verið fallið frá þeim samþykktum sem hefðu verið gerðar og að í samþykktinni frá árinu 2005 fælist að hans mati ekki neitt um að verið væri að samþykkja að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag.

Mér finnst rökin góð vegna þess að í fyrri samþykktum flokksins var m.a. gerð samþykkt um að það ætti að verða til sjálfseignarstofnun um Ríkisútvarpið. Þegar flokkur hefur gert slíka samþykkt hlýtur hann að þurfa að gera einhverja aðra samþykkt þar sem fallið er frá þeirri ákvörðun sem þarna hafði verið tekin um sjálfseignarstofnun.

Ég sé ekki betur en að Framsóknarflokkurinn hafi selt próventuna sína hvað eftir annað. Undarlegasti parturinn af því — þó að maður gleymi ekki því sem á undan er gengið, sölunni á Símanum sem Framsóknarflokkurinn var á móti og Íraksstríðinu sem Framsóknarflokkurinn var dreginn með út í án þess að hafa gert um það neinar samþykktir, að hann vildi taka þátt í því hlutverki sem Ísland þar tók að sér — virðist mér að í útvarpsmálinu hafi orðið helmingaskiptaniðurstaða gegn vilja þess fólks sem styður þennan flokk.

Að Framsóknarflokkurinn hafi selt próventuna sína, og um Sjálfstæðisflokkinn má segja eins og í ævintýrinu að kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn, finnst mér hafa náð hæðum á síðasta ári. Reyndar þarf ég þá kannski að fara aðeins fram í tímanum til þess tíma sem Halldór Ásgrímsson tók við forsætisráðherraembættinu. Það virðist hafa orðið Framsóknarflokknum dýrt. Það virðist líka hafa verið Framsóknarflokknum dýrt þegar Halldór Ásgrímsson ákvað að nú væri kominn tími til að hann færi úr þeim stóli. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa viljað fá eitthvað fyrir það líka. Framsóknarflokkurinn hefur þurft að kaupa sig bæði inn í ráðherrastólinn, forsætisráðherraembættið, og svo út úr embættinu aftur.

Ég byggi það á því að síðustu fréttir eru um það að Framsóknarflokkurinn hafi fallið frá því máli sem hann bar fram í kosningabaráttunni síðast og var stærst. Aðdragandi þess máls var auðvitað átökin um auðlindina sem höfðu staðið lengi, mikil átök í Framsóknarflokknum og reyndar í mörgum öðrum flokkum um það mál. Því lyktaði með því að stofnað var til nefndar og ég verð að segja eins og er að ég fylltist nokkurri aðdáun á Framsóknarflokknum fyrir það starf því að mér skildist að þar hefðu komið að málum 150 manns úr Framsóknarflokknum, tekið þátt í þeirri stóru nefnd sem átti að finna sáttaleið í sjávarútvegsmálinu í Framsóknarflokknum.

Sá sem stýrði þeirri nefnd var Jón Sigurðsson, þá líklega seðlabankastjóri, a.m.k. var hann það áður en hann tók við sem formaður Framsóknarflokksins. Honum tókst með, ég vil segja, góðri stjórn á þessum fjölmenna hópi framsóknarmanna sem var að leita að sáttaleið í sjávarútvegsmálinu að finna hana.

Hver var aðalniðurstaðan af starfi þessa hóps? Sú að í stjórnarskrána skyldi sett ákvæði um að þjóðin ætti sjávarauðlindina. Framsóknarflokkurinn fór með þessa niðurstöðu í kosningabaráttuna síðast, kynnti hana fyrir fólkinu í landinu og á pólitískum fundum var þessi stefna höfð uppi og menn gumuðu mjög af þeirri niðurstöðu sem þar hafði orðið.

Ekki bara það. Þingflokkur Framsóknarflokksins fékk því svo framgengt að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem ég er hér með, var sett ákvæði sem á upphaf sitt í þessu starfi nefndarinnar sem ég var hér að nefna. Þar stendur á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.“

Ég vek athygli á því að þetta er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir það kjörtímabil sem er að líða núna. Þetta er ekki einhver yfirlýsing um hvað eigi að gera eftir að þetta kjörtímabil er liðið eða í framtíðinni. Nei, nei, þetta er yfirlýsing um hvað átti að gera á þessu kjörtímabili.

Framsóknarflokkurinn var ekkert hættur í málinu. Þegar Halldór Ásgrímsson tók við sem forsætisráðherra skipaði hann stjórnarskrárnefnd sem hafði m.a. þetta verkefni. Formaður þeirrar nefndar er hæstv. sitjandi forseti hér á bak við mig, hann leiddi starf þessarar nefndar. (Gripið fram í: Góður maður.) Ágætur maður, Jón Kristjánsson, hv. þingmaður, fyrrverandi ráðherra.

Hann lýsti því svo yfir, þessi hv. þingmaður, í fyrradag að niðurstaða nefndarinnar hefði orðið sú að einungis ein tillaga kæmi frá nefndinni. Í ljósi þess að þetta ákvæði um auðlindir sjávar sem ég las hér upp áðan er í stjórnarsáttmálanum og í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti líka með Framsóknarflokknum þessa stefnuyfirlýsingu og í ljósi þess að allir aðrir flokkar sem eiga þingmenn á Alþingi voru tilbúnir til að standa að því að þetta ákvæði yrði sett í stjórnarskrána hlýtur maður að spyrja sig: Hvað gerðist? Hvernig stendur á því að menn hlaupa frá þessu verkefni sínu?

Undirbúningur undir málið liggur allur fyrir. Hann liggur fyrir í starfi auðlindanefndar sem skilaði af sér árið 2000. Undirnefnd fjallaði um málið í stjórnarskrárnefndinni og komst að þeirri niðurstöðu að málið væri tilbúið, það væri hægt að flytja það.

Þá byrjaði eitthvað að gerast sem varð til þess að starfi nefndarinnar vatt nú ekki lengra fram en svo að þessi eina tillaga hefur verið boðuð, um það hvernig skuli farið með stjórnarskrárbreytingar í þinginu. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri tillögu en það er ekki hægt annað en að láta sér detta í hug að hluti af því þegar Halldór Ásgrímsson samdi um framtíð Framsóknarflokksins í hið síðasta sinnið, þ.e. þegar hann hætti sem forsætisráðherra, hafi verið að samþykkja það að gangast undir það ok sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi, sem sagt að þetta mál yrði ekki að veruleika. Og þeir höfðu það fram.

Þetta er forkastanlegt. Og ég trúi því að einhvers staðar muni menn sem tóku þátt í starfi hinnar stóru nefndar í Framsóknarflokknum vilja velta þessu máli upp til umræðu inni í flokknum.

Þegar maður veltir þessum málum fyrir sér sem Framsóknarflokkurinn hefur verið að burðast með hér á undangengnum árum sjáum við að hann hefur verið tilbúinn til þess að semja sig frá stefnu flokksins þegar hann hefur þurft á því að halda af einhverjum ástæðum. Við sáum það í símamálinu. Við sjáum það núna í útvarpsmálinu. Við sjáum það í þessu máli með þjóðarauðlindina. Við sáum hvernig fór í sambandi við Íraksmálið sem enginn efast um að átti upptök sín hjá hæstv. forsætisráðherra þeirra tíma.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki tekið mjög langan tíma til að ræða þetta mál í sölum Alþingis og á ekki von á því að verða atyrtur mikið fyrir það þó að ég hafi talað hér í þrjú korter eða svo. Ég sé ekki ástæðu til að tala meira, félagar mínir í stjórnarandstöðunni sem hafa talað í þessari umræðu hafa farið vandlega yfir þetta mál. Ég hef komið að þeim tveimur hlutum málsins sem mér fannst ástæða til að ræða alveg sérstaklega. Ég ætla þess vegna ekki að hafa orð mín fleiri núna og ég vona sannarlega að menn finni flöt á því að komast að samkomulagi um hvernig menn fara með stóru málin á Alþingi. Við höfum ekki átt því láni að fagna á undanförnum árum.

Hér hafa menn í skjóli þess meiri hluta sem þeir sem ráða ríkisstjórninni virðast hafa full tök á hér í þinginu ætlað að setja ítrekað í gegn mál sem eru umdeild. Á þeim málum hefur stundum verið býsna mikill lýðræðishalli. Ég kalla það því nafni vegna þess að þegar helmingaskiptin fara fram á þessum bæjum ríkisstjórnarflokkanna er greinilegt að samviskunni og flokkssamþykktum, a.m.k. Framsóknarflokksins, hefur verið vikið til hliðar og það oftar en einu sinni.