133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:46]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem fjallaði um Framsóknarflokkinn og ýmislegt annað, eitthvað um efni frumvarpsins sem við erum að ræða og annað kannski ekki nákvæmlega, eins og sjávarútvegsmál. En það er allt í lagi að menn ræði hugðarefni sín hér.

Við erum nú á fimmta degi í umræðu um þetta mál Ríkisútvarpsins og línur nokkuð farnar að skýrast hvað varðar viðhorf flokka og stjórnmálamanna til meginefnis þessa frumvarps.

Það liggur sem sagt fyrir nú að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, ásamt varaformanni Samfylkingarinnar, styðja það að Ríkisútvarpið verði gert að opinberu hlutafélagi. Hins vegar munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hluti þingmanna Samfylkingarinnar og þingmenn Frjálslynda flokksins, að því er mér skilst, ekki styðja frumvarpið ásamt hv. þm. Valdimari L. Friðrikssyni sem er utan flokka.

Það vekur óneitanlega athygli að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefur gengið í lið með okkur stjórnarliðum hvað varðar stuðning sinn við það að Ríkisútvarpið verði gert að opinberu hlutafélagi og upplýsti um þau viðhorf sín í Fréttablaðinu þann 10. nóvember sl.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson, sem hélt hér sína ræðu, er: Á hvorum vængnum í Samfylkingunni er hann? Hvorri fylkingunni tilheyrir hann? Er hann sammála varaformanni (Forseti hringir.) sínum, Ágústi Ólafi Ágústssyni, um að það eigi að (Forseti hringir.) gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi eða er hann sammála hinni (Forseti hringir.) fylkingunni í Samfylkingunni?