133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:48]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um það af því að hann hefur greinilega ekki hlustað á nema síðasta hluta ræðu minnar. (SKK: Jú, jú.) Í fyrri hlutanum fjallaði ég einmitt um málið. Þar kom skýrt fram hvers vegna ég hef áhyggjur af þessu máli. Ég tel að hv. þingmaður ætti að hafa sömu áhyggjur af því og ég. Ég held að hv. þingmaður hafi þær taugar til samkeppnisumhverfisins sem á að ríkja á markaðnum að hann muni vilja tryggja að þeir aðilar sem keppa á markaðnum séu vel settir, séu jafnsettir, að þeir geti búið við einhvers konar jafnræði á markaðnum. Það verður ekki til að mínu viti með þessu frumvarpi. Ég er þess vegna á móti því að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag og er sammála Samfylkingunni í því efni eins og reyndar mörgu fleiru.

Mér finnst hv. þingmaður, eins og ég sagði áðan, gera dálítið í því að gera mönnum upp skoðanir. Það liggur algjörlega fyrir að þetta frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. er andstætt skoðunum hans sjálfs. Hann hefur flutt hér frumvarp um að selja Ríkisútvarpið. Hann gerði það að vísu ekki núna en það frumvarp liggur engu að síður fyrir þar sem félagar hans flytja það. Auðvitað getur maður ekki ályktað öðruvísi en svo að þeir sem fluttu það frumvarp séu ekki sammála því lagafrumvarpi sem við erum að ræða hér.

Síðan sagði hv. þingmaður að Framsóknarflokkurinn styddi málið. Ég veit ekki betur en að hér hafi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson haldið ræðu og lýst því alveg skýrt og greinilega yfir að hann væri á móti málinu.

Þetta nú bara svona. Ég hef hins vegar ekki heyrt hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson lýsa því yfir að (Forseti hringir.) hann sé ekki sammála Samfylkingunni í afstöðu til þessa máls.