133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vill upplýsa málið. Málið er mjög skýrt og greinilegt. Samfylkingin hefur sent frá sér samþykktir um að hún vilji að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun. Allir þingmenn Samfylkingarinnar hafa samþykkt þetta.

Það liggur fyrir, og ég ætla ekki að endurtaka það, enda er hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson fullfær um að svara fyrir sig og hefur haldið ræðu einmitt um það efni sem hv. þingmaður hefur verið að fara hér yfir enn einu sinni í ræðustólnum. Það virðist ganga svolítið illa hjá hv. þingmanni að meðtaka það svar sem hv. þingmaður hefur gefið honum.

Ég held hins vegar að samstaðan í stjórnarflokkunum, sem a.m.k. Kristinn H. Gunnarsson er ekki með í, sé fengin með gamla laginu. Ég lýsti því í ræðu minni. Hún er fengin með þessari helmingaskiptaaðferð þar sem hendur manna eru bundnar. Sjálfstæðismenn hafa látið binda hendur sínar. Sjálfstæðismenn sem hafa flutt hér frumvörp um það að einkavæða og selja Ríkisútvarpið eru tilbúnir að samþykkja þetta frumvarp sem hér liggur fyrir sem snýst um það að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi en ekki að þess konar fyrirtæki sem þessir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til.

Ég held að hv. þingmaður ætti að reyna að gera afstöðu sjálfstæðismanna hér svolítið skýrari og fara betur yfir hana, enda er hann kannski kunnugri á þeim bæ en í herbergjum Samfylkingarinnar.