133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn frumvarp ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Í þessari 3. umr. hefur verið rakið hér og aftur farið yfir feril þessa máls á þingi sem er búinn að vera með þeim endemum að ráðherra hefur lagt fram frumvarp aftur og aftur, gjörbreytt frá því sem fyrra frumvarp var. Við sjáum nú líklega þriðju eða fjórðu útgáfu þessa máls. Bara það eitt sýnir hversu illa undirbúið og unnið þetta frumvarp er og að það skuli stöðugt vera stjórnarandstaðan, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, sem með því að fara mjög ítarlega ofan í vinnuna bendir stöðugt á ný atriði sem eru þarna illa unnin eða mega betur fara.

Það er alveg sjálfsagður hlutur og eðlilegt að stjórnarandstaðan hafi þetta hlutverk og geri það og það höfum við gert hér mjög ítarlega og vel. Ef litið er til frumvarpsins sem var fyrst lagt fram hér af hálfu menntamálaráðherra og þess sem nú liggur fyrir er varla hægt að segja að um sama mál sé að ræða — annað en að einkavæða það. Það hefur verið hinn rauði þráður í gegnum allt þetta mál frá byrjun, að það skuli koma Ríkisútvarpinu út á markað, það skuli koma því í þann búning að það verði eins og fyrirtæki á markaði, þ.e. einkavætt. Þetta er í rauninni sá þráður sem hefur gengið í gegn og er í rauninni líka það sem tekist er á um. Hér er tekist á um grunngildi. Það er tekist á um það hvort Ríkisútvarpið sé almannaþjónustustofnun með hlutverk gagnvart þjóðinni allri sem ekki skuli fórnað á altari markaðarins ellegar hvort Ríkisútvarpið sé tekið eins og hver önnur markaðsvara, sem er vilji Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, og búin út þau lög sem ýta því út á einkavæðingarvagninn, ýta Ríkisútvarpinu út á þann vagn að það verði síðan selt í hlutum eða í heilu lagi, væntanlega í samræmi við helmingaskiptareglu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins við einkavæðingu á ríkisstofnunum undanfarinna ára.

Þetta er í sjálfu sér það sem tekist er á um og það hefur verið alveg ljóst frá byrjun að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lítum á Ríkisútvarpið sem almannaþjónustustofnun. Við lítum á Ríkisútvarpið, hlutverk þess og vettvang sem einn af grunnþáttum íslensks samfélags. Þess vegna höfum við lagt svo gríðarlega áherslu á að verja þessa grunnstofnun, þá grunnsál samfélagsins sem Ríkisútvarpið er.

Hlutafélagaformið er gott og blessað þar sem það á við, mikil lifandis ósköp, t.d. í samkeppnisatvinnurekstri þar sem ábyrgð eigendanna miðast einungis við upphæð hlutafjárins sem lagt er í hlutafélagið. Það hlutafélag fer síðan á markað, hlutirnir geta gengið kaupum og sölum o.s.frv., það er eðli hlutafélaga, og markmið með stofnun og rekstri hlutafélaga er einmitt að hlutirnir geti gengið kaupum og sölum á markaði, að þeir geti skilað eigendum sínum arði í formi peninga og þeir geti þá eftir því sem verkast vill staðið í þeirri samkeppni, reynt að keppa við aðila sem eru á nákvæmlega sama markaði, hafa þá undir, standa þeim jafnfætis og jafnvel orðið að lúffa fyrir þeim. Það er eðli markaðarins.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum ekki að Ríkisútvarpið sé háð þessum lögmálum. Það er allt í lagi að stofna bifvélarekstur, bílasölu sem hlutafélag þar sem eigendurnir geta verið einn, þrír, fjórir eða hvað sem er og ábyrgðin einungis bundin við það fjármagn sem lagt er í hlutafélagið. Það er gott og blessað, við vitum að það er mjög eðlilegt að bílasölur starfi á markaðsgrunni. Sömuleiðis getum við horft á verslunarrekstur og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vildum gjarnan að það væri meiri og virkari samkeppni á jafnréttisgrunni í verslunarrekstri þannig að verslun í landinu safnaðist ekki á örfárra manna hendur. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum einmitt talsmenn kaupmannsins, einstaklingsins sem rekur verslunina sína á eigin forsendum og eigin ábyrgð, græðir á henni ef hann getur eða reynir að reka hana með þeim hætti að viðunandi sé. Við horfum því miður á það að hver kaupmannsverslunin á fætur annarri verður að lúta í gras fyrir yfirgangi stórfyrirtækja sem í krafti þess að geta fært fjármagnið á milli einstakra deilda sinna geta lagt undir sig hin ýmsu fyrirtæki.

Mér er minnisstæð umræðan um apótekin og þekki nokkur dæmi um afdrif þeirra eftir tilkomu þessara tveggja meginrisa í lyfjaversluninni. Þar sem var sjálfstætt apótek settu þeir sig niður við hliðina á hinu sjálfstæða apóteki og sögðu: Annaðhvort lokar þú eða við munum á einu til tveimur árum, eftir atvikum, beita hér niðurboðum þangað til þú verður gjaldþrota og gefst upp. Ég þekki mörg svona dæmi um þennan rekstur, bæði í Reykjavík og úti um land, þar sem þessar stóru keðjur beita afli sínu með þessum hætti. Ég er ekki sammála svona bolabrögðum á markaði en þetta er það sem viðgengst.

Viljum við setja Ríkisútvarpið út á þennan sama markað? Finnst okkur ekki nóg komið? Viljum við setja Ríkisútvarpið, sem er einn af grunnþáttum íslenskrar þjóðarsálar, út á þetta markaðstorg? Nei, þarna viljum við segja stopp. Við viljum segja stopp við því að Ríkisútvarpið skuli fara þessa sömu leið og hvert fyrirtækið og hver þjónustustofnunin á fætur annarri í eigu ríkisins hefur orðið að fara á undanförnum árum.

Ferill þessarar ríkisstjórnar, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, í einkavæðingarmálum hygg ég að verði talinn einn sá svartasti gagnvart samfélagseignum og samfélagslegri ábyrgð þjóðarinnar þann liðlega áratug sem hún hefur setið. Við þekkjum sögu einkavæðingar á bönkunum, hvernig þeir voru fyrst hlutafélagavæddir og síðan var þeim skipt upp á milli flokksgæðinga Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eftir einhverjum reglum sem þeir komu sér innbyrðis saman um. Bankarnir eru mjög mikilvægir og hafa grundvallarþýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag og við hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði töldum að mikilvægt hefði verið að halda a.m.k. einum banka eftir sem þjóðbanka sem hefði haft það hlutverk að annast peningaviðskipti, útlán og innlán fyrir einstaklinga og fyrirtæki en ekki endilega að vera fjárfestingaraðilar í stórfyrirtækjum eins og bankarnir nú eru orðnir. Það hefði verið einn sterkur þjóðbanki og síðan hefðu verið aðrar fjármálastofnanir sem hefðu þá verið á almennum markaði. Þess vegna lögðum við t.d. svo ríka áherslu á að Íbúðalánasjóði yrði ekki fórnað.

Hverjir sóttu hvað harðast að Íbúðalánasjóði, þessum grunnsjóði sem hefur tryggt jafnrétti til þeirra frumþarfa sem við höfum lagt áherslu á fyrir íslenska þjóð, fyrir alla íbúa hér, að geta komist yfir eigið húsnæði óski maður þess? Nú hefur verið sótt mjög hart að Íbúðalánasjóði, og hverjir voru það? Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, og hver man ekki eftir hinum eindregnu hörðu yfirlýsingum frá fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, félagshyggjuflokksins gamla, Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi forætisráðherra, um hve brýnt væri að einkavæða Íbúðalánasjóð? Ég minnist þess að ég hlustaði á ræðu hjá þáverandi formanni Framsóknarflokksins, sem var líka forsætisráðherra, á ársfundi Seðlabankans fyrir einu og hálfu ári eða svo þar sem hann lagði þunga áherslu á að eitt það mikilvægasta fyrir íslenskt fjármálalíf væri að einkavæða Íbúðalánasjóð. Það var held ég bara fyrir samstillt átak — ja, við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði börðumst gegn því og einnig kom víða í samfélaginu upp mjög hörð andstaða. Ég minnist þess að Félag fasteignasala lagðist mjög ákveðið gegn því að Íbúðalánasjóður yrði einkavæddur. Ríkisstjórnin var reiðubúin að gera það og setti í gang vinnu þar að lútandi og taldi það vera forgangsmál á sínum tíma. Því tókst að forða í bili að Íbúðalánasjóður yrði einkavæddur.

Landssíminn er hitt dæmið um einkavæðingarferil þessarar ríkisstjórnar og þar var farin nákvæmlega þessi leið. Fyrst var Landssíminn hlutafélagavæddur. Það var talið svo mikilvægt að hlutafélagavæða Landssímann til að hann fengi umgjörð sem passaði betur í einhverju rekstrarumhverfi. Landssíminn var eitt af sameiningartáknum þjóðarinnar, alveg eins og Ríkisútvarpið, eitt af því sem þjóðin hafði barist fyrir að fá, til að tengja alla landsmenn hvar sem var á landinu með símaþjónustu, fjarskiptaþjónustu, og það var hluti af því að byggja Ísland upp sem öfluga, framsækna þjóð. Landssíminn var eitthvað sem allir gætu gert kröfu til að stöðugt stæði sig og gerði betur í þjónustu sinni. Arður Landssímans var fólginn í því að bæta og efla þjónustuna, og öllu því fjármagni sem kom inn vegna Landssímans átti að verja m.a. til þess að efla og bæta fjarskiptaþjónustuna.

Þegar Landssíminn var einkavæddur, honum breytt í hlutafélag, átti ekki aldeilis að selja hann. Nei, það átti bara að breyta honum svona til þess að laga hann að rekstrarumhverfinu. Nákvæmlega það sama og sagt er nú um Ríkisútvarpið. Við heyrðum það hjá núverandi formanni Framsóknarflokksins sem kom í einnar mínútu ræðu hér í dag um þetta mál þar sem hann sagði að menntamálaráðherra færi með þessi mál fyrir hönd Framsóknarflokksins, menningarmálin og málefni Ríkisútvarpsins, en jú, það stæði ekki til að selja hann, það ætti samt að hlutafélagavæða hann. Nákvæmlega það sama var sagt um Landssímann.

Ég vil rifja hér upp aðeins varðandi Símann af því að það er svo nauðsynlegt að átta sig á því að við erum að fara inn í nákvæmlega sama ferli og Síminn fór í gegnum. Sömu orð eru notuð, sama aðferðafræði, sömu rök.

Póstur og sími var hlutafélagavæddur 1996, þá var fyrirtækinu breytt í hlutafélag og þá hófst söluferlið. Það tók átta eða níu ár að selja hann en árið 1996 sagði um þann gjörning þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem rekin er eftir fjárlögum. Póstur og sími getur t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum þótt í smáu sé nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til þess að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur.

Ég legg áherslu á,“ segir samgönguráðherra þá, talsmaður ríkisstjórnarinnar, „að í mínum huga kemur ekki annað til en að Póstur og sími verði áfram og alfarið í eigu ríkisins.“

Fleiri ráðherrar gáfu þann svardaga á þeim tíma þegar verið var að keyra hlutafélagavæðingu Símans í gegn að hann yrði aldrei seldur. Þetta væri ekki aldeilis liður í því.

Við sem höfum fylgst með umræðunni um Ríkisútvarpið þessa dagana heyrum nákvæmlega sömu setningarnar, þetta sé mikilvægt til að laga fyrirtækið að nútímarekstrarháttum, gera því kleift að verða aðili að öðrum fyrirtækjum og gera því kleift að selja þetta eða hitt til að vera samkeppnisfært í einhverju slíku umhverfi. En, nei, það stendur alls ekki til að selja það. Maður getur alveg undrast það að þingmenn og ráðherrar sem halda þessu fram haldi að við séum öll svona vitlaus og ætlast til þess að við trúum þessu. Það er svo fráleitt, enda hafa þau ekkert umboð til að segja eitt eða neitt í þessa veruna. Eftir að búið er að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag er það komið á einkavæðingarvagninn, tilgangurinn getur aðeins verið sá einn að selja fyrirtækið, innan úr því, einstök verkefni, í hlutum eða að öllu leyti. Allt tal um annað er blekkingar, ósannindi, sagt gegn betri vitund. Ef ætlunin er að halda Ríkisútvarpinu áfram í þjóðareign sem slíku á ekki að hlutafélagavæða, þetta er svo einfalt. Enda eru til þeir þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum sem hafa alveg grímulaust flutt um það frumvarp hér á Alþingi, ekki á þessu þingi en á tveim undanförnum þingum minnist ég frumvarpa frá forustumönnum í þingliði Sjálfstæðisflokksins. Ég er hérna t.d. með frumvarp til laga um útvarpið frá þingárinu 2003–2004, frumvarp frá hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem er einn af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Birgi Ármannssyni, sem er talinn líka einn af nútímahugmyndafræðingum Sjálfstæðisflokksins, og Sigurði Kára Kristjánssyni, sem er núna formaður menntamálanefndar. Allt eru þetta rísandi stjörnur undir þeirri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, einkavæðingarhugmyndafræði, í þeim efnum og fara hér með leiðtogahlutverk í störfum þingsins hvað þetta mál varðar.

Hér flytja hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson tillögu um einkavæðingu Ríkisútvarpsins og sölu þess. Með leyfi forseta má ég til með að vitna í setningar úr frumvarpinu fyrir tveimur árum sem var reyndar endurflutt aftur fyrir ári, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Einkavæðing RÚV. Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, verði felld úr gildi 1. janúar 2005 …“ — þetta var á löggjafarþingi 2003–2004. — „Stofnað verði hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins og það selt.“

Ósköp einfalt og skýrt. Þetta er hinn pólitíski vilji forustumanna Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum, enda hafa þeir margir hverjir ekki legið á þeirri skoðun sinni í umræðunni að stuðningur þeirra við hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins sé einungis bundinn við það að þeir sjá þetta sem lið í að undirbúa það til sölu. Það er oft miklu heiðarlegra að koma fram með þessum hætti og ég virði það við sjálfstæðismenn að þeir koma heiðarlega fram. Þeir líta svo á að þetta sé aðeins undirbúningur að sölu Ríkisútvarpsins.

Aftur á móti er mun erfiðara að bera virðingu fyrir framkomu Framsóknarflokksins sem nú styður einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Mjög ítarlega hefur verið rakið í þingræðum, ég minnist mjög ítarlegrar þingræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar fyrir sólarhring, þar sem hann rakti flokkssamþykktir Framsóknarflokksins frá undangengnum árum sem allar gengu út á að Ríkisútvarpið yrði ekki hlutafélagavætt. Staðinn yrði vörður um Ríkisútvarpið. Það yrði ekki sett á einkavæðingarvagninn. Ég held að mörgum framsóknarmanninum hafi þótt það blóðugt þegar forusta Framsóknarflokksins sveik þjóðina með því að einkavæða og selja Landssímann.

Skoðanakannanir sem gerðar voru skömmu áður en sá gjörningur fór fram sýndu að milli 70–80% af þjóðinni voru andvíg sölu Landssímans. Ef um var að ræða kannanir meðal framsóknarmanna, sérstaklega úti á landi, var niðurstaðan enn þá afdráttarlausari gegn sölu Landssímans.

Maður hefði haldið að þetta væri eitthvað sem forusta Framsóknarflokksins hefði þá getað lært af. En svo virðist ekki vera. Ég er meira að segja með tiltölulega glænýja samþykkt frá ungum framsóknarmönnum. Nú veit ég ekki hve fjölmennur sá hópur er orðinn. En engu að síður sá hópurinn ástæðu til að álykta gegn áformum flokksforustunnar um að einkavæða Ríkisútvarpið. Í Fréttablaðinu 29. nóvember 2006 birtist eftirfarandi ályktun og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa hana upp:

Fyrirsagnir eru: „Ungir framsóknarmenn: Mótmæla RÚV-frumvarpi.

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) samþykkti í gær ályktun þar sem þingmenn eru hvattir til þess að samþykkja ekki frumvarp um RÚV ohf.

Í ályktuninni kemur fram að SUF telur hvorki að hagsmunum RÚV, né almennings í landinu, sé best borgið með hlutafélagavæðingu.

Einnig kemur fram í ályktuninni að SUF telji fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi án þess að afstaða hafi verið tekin til mikilvægra spurninga eins og aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði.“

Hér er mjög afdráttarlaus yfirlýsing frá grasrót Framsóknarflokksins um að skora á þingmenn sína að samþykkja ekki hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég hefði viljað heyra hjá hinum nýja formanni Framsóknarflokksins hvernig forusta flokksins hefur tekið á þessari ályktun.

Ég þekki fullt af framsóknarmönnum um allt land, eins og ég sagði áðan, sem fengu upp í kok af einkavæðingu Landssímans og búa nú við það að þjónustustigið hefur lækkað og versnað, gjaldskráin hækkar og samfélagið dregst stöðugt aftur úr hvað varðar eflingu fjarskiptaþjónustunnar.

Munum við ekki eftir hvað var fyrst gert þegar Landssíminn var seldur? Það leið varla sólarhringur áður en starfsstöð Landssímans á Blönduósi var lokað, mikilvæg þjónustustöð sem íbúarnir gátu leitað til með margvíslega þjónustu á sviði fjarskipta. Henni var lokað. Þjónustustigið var skert á viðkomandi svæði fyrir atvinnulífið og einstaklinga.

Þjónustustöðin á Sauðárkróki hélt upp á 100 ára afmælið sitt með því að henni var lokað. Það sama gerðist á Ísafirði. Og reyndar um allt land hefur hverri þjónustustöð Landssímans verið lokað á fætur annarri. Þegar menn ætla að reyna að hringja og spyrja um bilanir er bara hægt að hringja í einn þjónustusíma, þar sem menn geta lent í að vera númer 20 eða 30 á biðlista eftir því að vera svarað. Þegar svörin koma er það yfirleitt þannig að þetta verði athugað og erfitt að fylgja því frekar eftir. Ég hef lent ítrekað í þessu, ég er því ekki að bera upp á aðra það sem ég hef sjálfur reynt.

Þetta er sú þjónusta sem í boði er. Ég minnist þess í umræðunni um Landssímann á sínum tíma þegar við, mig minnir allir stjórnarandstöðuflokkarnir, þó Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi í rauninni gengið í fararbroddi gegn sölu Símans, þá sameinuðust þeir hér í restina um að grunnnetinu yrði að minnsta kosti haldið eftir. En þá var því svarað að ekki væri hægt að halda grunnnetinu sér. En hvað er svo nú? Í haust var tilkynnt að grunnnetið gæti verið til sölu. Nú heyrast aftur raddir um að Síminn sé að skipta fyrirtækinu upp í tvennt, annars vegar grunnnetið og hins vegar aðra starfsemi. Allt sem stjórnvöld hafa sagt um það mál hefur reynst vera blekking, enda vissum við það fyrir.

Ég held að framsóknarmenn og fólk í landinu vilji ekki sjá Ríkisútvarpið fara núna sömu leið. Ég held að því blöskri framganga forustu Framsóknarflokksins í að keppast við að einkavæða Ríkisútvarpið mánuði fyrir kosningar.

Af hverju leyfum við ekki þessum málum að bíða fram yfir kosningar, eins og við höfum lagt til? Við höfum lagt til að gildistökuákvæðinu verði frestað. Það yrði sett þannig að lögin, verði frumvarpið samþykkt, taki ekki gildi fyrr en eftir kosningar, þ.e. í sumar eða haust. Þjóðinni gæfist þá tækifæri til að kjósa um þessa einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Ný ríkisstjórn gæti því tekið ákvörðun um hvort af einkavæðingu Ríkisútvarpsins verður eða ekki.

Ef Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fá áfram meiri hluta og stjórna áfram eins og þeir vilja — báðir hafa lýst yfir að þeir stefni að því að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi fái þeir meiri hluta til þess, sem ég vona að verði ekki, ég vona að það verði svo sannarlega ekki, en þeir hafa engu að síður lýst yfir að þeir muni stefna á áframhaldandi stjórnarsamstarf — þá verður bara að hafa það úr því að þeim er svo mikið keppikefli að einkavæða Ríkisútvarpið. Munar þá um einn mánuð til eða frá í þeim efnum?

Hins vegar er alveg ljóst ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð kemur að þessum málum og verður við stjórnvölinn eftir kosningar, munum við að sjálfsögðu leggjast gegn einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Er ekki rétt að leyfa nýrri ríkisstjórn að taka endanlega ákvörðun um það mál? Af hverju að keyra þetta í gegn örfáum vikum fyrir kosningar? Það er mikil óbilgirni.

Mér er sem ég sjái að forusta Framsóknarflokksins sem er að svíkja allar sínar flokkssamþykktir um einkavæðingu Ríkisútvarpsins — ég efast um að þeir hafi umboð til þess að samþykkja lagafrumvarpið.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem meira að segja núverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, sagði að talaði rödd grasrótarinnar, á miðstjórnarfundi nýverið, það voru orð hans um málflutning Kristins H. Gunnarssonar.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði, sem ég dreg ekki í efa, að einkavæðing eða hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins hefði ekki verið í stjórnarsáttmálanum á milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Hún hafi ekki verið þar. Þess vegna hefði framsóknarmönnum á engan hátt borið skylda til þess að gangast undir þetta einkavæðingarmen Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt.

Hins vegar höfum við upplifað þann dans sem varð í kringum forsætisráðherraembættið og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að í ræðu sinni. Hann sagði að árið 2005 hefði orðið stefnubreyting hjá þingflokki Framsóknarflokksins varðandi Ríkisútvarpið. Þangað til hefði verið andstaða við að hlutafélagavæða það, fara út í það ferli sem við nú stöndum frammi fyrir, en þá hafi orðið stefnubreyting. Þá hefði þingflokkur Framsóknarflokksins allt í einu gengið undir það jarðarmen einkavæðingarinnar að einkavæða Ríkisútvarpið.

Ég minnist orða fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, í sjónvarpsþætti þar sem hann var spurður um stjórnunarstíl sinn. Ég veit að margir heyrðu það. Þegar hann var spurður um stjórnunarstíl vitnaði hann, að mig minnir, til ömmu sinnar, frú forseti, sem hafði notað smjörklípuaðferðina á köttinn. Þegar kötturinn var orðinn eitthvað órólegur í húsinu tók hún smjörklípu og klíndi í feldinn á kettinum og þá hafði kötturinn eitthvert viðfangsefni og róaðist á meðan og sleikti feldinn.

Auðvitað vissum við sem hlustuðum á þetta að verið var að tala um stjórnarsamstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Við skildum það ósköp vel. Enda er fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, ávallt mjög klókur og myndrænn þegar hann er að lýsa ákvörðunum sínum og gjörðum.

Ég veit ekki hvort hinum almenna framsóknarmanni sé skemmt að heyra hvaða stjórnunarstíl var beitt á forustu Framsóknarflokksins til að fá forustuna til að samþykkja einkavæðingu Ríkisútvarpsins.

Er hinn almenni framsóknarmaður úti um land, á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Suðurlandi, í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, sáttur við að þessum stjórnunarstíl hafi verið beitt til að fá forustu Framsóknarflokksins til að samþykkja einkavæðingu Ríkisútvarpsins? Ég dreg það stórlega í efa. Ég held að engum sé skemmt yfir því.

Hitt er ljóst af orðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að um mitt ár 2005 varð stefnubreyting og þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Nú keyrir Framsóknarflokkurinn það langharðast af öllum að koma málinu í gegn. Öðruvísi mér áður brá.

Meira að segja blöskraði fyrrv. forsætisráðherra, sem nú er ritstjóri Fréttablaðsins, svo þetta allt saman að hann gat þess sérstaklega í blaðagrein. Í ritstjórnargrein 5. apríl sl. hefur hann uppi efasemdir um heilindin á bak við hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Annaðhvort er undirbúningurinn í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform um að reka hér menningarútvarp og -sjónvarp með nokkurri reisn og af þeim metnaði sem einn getur yfir höfuð verið réttlæting fyrir rekstri Ríkisútvarpsins.“

Þetta segir ritstjóri Fréttablaðsins, fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins, og blöskrar hvernig málum vindur fram.

Ég ætla ekki að fara yfir alla þá þætti sem ég vildi koma inn á því að þetta er fyrri ræða mín við 3. umr. um hlutafélagavæðingu, um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég vil leggja á það áherslu að Ríkisútvarpið er einn af hornsteinum íslensks samfélags. Það var stolt þjóð sem hóf útsendingar á nýju ríkisútvarpi árið 1930. Þetta útvarp reyndist fljótt verða eins konar sál þjóðarinnar og sameinaði hana í sókn til nýrra tíma. Það var ekki aðeins boðberi frétta og veðurfregna heldur varð það aflvaki menningar og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og þeirri baráttu lýkur aldrei. Ríkisútvarpið tók sé bólfestu í innstu djúpum þjóðarsálarinnar og varð eins og órjúfandi hluti af hjartslætti hennar og þannig er það enn þann dag í dag.

Með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, með því að setja Ríkisútvarpið upp á einkavæðingarvagninn er verið að fórna þeim hjartslætti þjóðarinnar, verið er að rjúfa þá sátt sem hefur ríkt um Ríkisútvarpið í þá áratugi sem það hefur starfað. Verið er að vega að þeim metnaði sem þjóðin sameinuð hefur staðið og barist fyrir að baki Ríkisútvarpsins. Allt á þetta að gerast til að þjóna einhverri einkavæðingargræðgi núverandi ríkisstjórnar sem hefur verið einkenni hennar þau stjórnarár sem hún hefur setið og ég held að flestum finnist nóg komið. Þetta á að gera örfáum vikum fyrir kosningar. Kveikur núverandi ríkisstjórnar er að brenna upp. Væri ekki rétt að núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hugaði að einhverjum betri eftirmælum en að það verði síðasta verk hennar að einkavæða íslenska þjóðarsál sem fólgin er í Ríkisútvarpinu? Ráð mitt er að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks taki þeim rökum sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingmenn Samfylkingarinnar og þingmenn Frjálslynda flokksins höfum lagt til.

Gott og vel, þið eruð búin að keyra málið fram af mikilli hörku. Þið ráðið meiri hlutanum á Alþingi. Getum við ekki sameinast um að þrátt fyrir að málið verði keyrt í gegn með því ofbeldi og þeim aðferðum sem hér eru hafðar í frammi verði gildistöku laganna frestað fram yfir kosningar sem eru á næsta leiti, að þá verði tekin endanleg ákvörðun af þeirri ríkisstjórn og þeim þingmeirihluta sem þá tekur við hver framtíðarörlög Ríkisútvarps, þjóðarútvarps Íslendinga, verða? Þetta er ótrúlega óskammfeilið að keyra svo viðamikið mál fram örfáum dögum fyrir kosningar af þeim meiri hluta sem við vonum öll — og ég veit að meiri hluti þjóðarinnar er mér sammála — að falli í vor.

Frú forseti. Ég ætla að láta fyrri ræðu minni um Ríkisútvarpið lokið. Ég mun í seinni ræðu minni fara nánar yfir efnislega þætti þess. Þó held ég að ég geti ekki látið hjá líða að minnast aðeins á nefskattinn sem á að fjármagna Ríkisútvarpið ohf. Búa á til hlutafélag sem lýtur öllum lögum og reglum um hlutafélagaformið, einkarekstrarformið, en það á að hafa fastan þjóðartekjustofn. Ég sé ekki að það gangi upp. Auðvitað eru alltaf skiptar skoðanir á því með hvaða hætti eigi að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins, hvort gera eigi það með afnotagjöldum, eins og nú er, á fjárlögum eða með nefskatti. Hér er lagt til að breytt verði í nefskatt og að allir greiði sérstakt gjald.

Hér stendur, með leyfi forseta, í 11. grein:

„Tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf. eru sem hér segir:

1. Samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga.“

Allir aðrir einstaklingar og lögaðilar eiga að greiða nefskatt, 14.580 kr. ár hvert. Ég er ekki að setja út á upphæðina. Ég tel eðlilegt að þjóðarútvarp Íslendinga hafi beintengingu við samfélagið í gegnum afnotagjöld með einum eða öðrum hætti, en ég hef ekki fengið upplýst hvernig gjaldtökunni á að vera háttað.

Ef allir lögaðilar eiga að fara greiða útvarpsgjald eru það ekki aðeins einstaklingar 16 ára og eldri svipað eins og gert er í Framkvæmdasjóð aldraðra, heldur eru það líka lögaðilar, eins og öll félög á fyrirtækjaskrá. Ég sé því fyrir mér og spyr þá sem hafa samið um: Félög eins og t.d. kvenfélög og búnaðarfélög, eiga þau að fara að borga útvarpsgjöld, öll velferðarfélög, samtök sem hafa skráða kennitölu, eiga þau að fara að borga útvarpsgjald? Hvar eru mörkin á því hverjir eigi að borga? Ég sé fyrir mér að Sauðfjárræktarfélag Helgafellssveitar eigi að fara að greiða útvarpsgjald. (Gripið fram í.) Gott og vel, það má vel vera að hægt sé að rökstyðja það að öll kvenfélög í landinu eigi að fara að greiða nefskatt í útvarpsgjöldum, að öll félög í landinu sem eru skráð sem lögaðilar eigi að gera það, en vita menn af þessu? Gera menn sér grein fyrir hvað er verið að fara út í? Mér er spurn. Það má vel vera að Lionsklúbbar og Rótarýfélög fari að greiða sérstök útvarpsgjöld, allir sem eru með skráða kennitölu, eru skráðir á fyrirtækjaskrá, eru skráðir í rekstri. Ég vil fá svör: Á hverja er verið að leggja á útvarpsgjald? Mér hefur ekki fundist þetta koma skýrt fram. Þegar verið er að breyta forminu er eins gott að tala skýrt. Ég krefst þess að áður en umræðunni lýkur komi forsvarsmenn frumvarpsins og geri grein fyrir því hverjir eigi að borga.

Ég fór að reyna að lesa mér til, ég sit ekki í hv. menntamálanefnd en engu að síður tel ég að frumvarpið og fylgirit með því, greinargerð, ættu að vera það skýr að hægt sé að sjá hverjir eigi að borga, hverjir eigi að greiða nefskattinn. Ég fór að lesa umsagnir með þessu og ég er jafnnær, ég veit ekki hverjir eiga að borga. Talað er um hverjir fái hugsanlega undanþágu frá því að greiða, talað er um að elli- og örorkulífeyrisþegar geti hugsanlega fengið lækkun. Ég heyrði í umræðunni fyrr í dag að þeir sem hefðu ekki launatekjur en hefðu bara fjármagnstekjur eins og hinir nýríku, sem eru launalausir en hafa bara fjármagnstekjur, að þeir þurfi ekki að borga, enda eru það aðilar sem njóta sérstakrar verndar núverandi ríkisstjórnar, hinir nýríku sem ekki hafa laun og fá bara tekjur af fjármagni. Því var lýst yfir að þeir þyrftu ekki að borga. Ég krefst þess að það verði skýrt rækilega hverjir eigi að greiða nefskattinn til hins einkavædda fyrirtækis, Ríkisútvarpsins ohf.

Ég tel að skýra eigi betur út fleiri atriði. Menn hafa viljað fara undan í flæmingi og sagt að með hlutafélagavæðingunni væri ekki verið að einkavæða heldur væri bara verið að breyta um rekstrarform. Mér finnst þetta vera eins og þegar fólk er komið á flótta því að með hlutafélagavæðingu er verið að breyta um rekstrarform, færa yfir í form einkarekstrar. Ég velti því fyrst fyrir mér þegar ég kom inn á þing hvað væri fólgið í einkavæðingu. Ég man þá að hv. þm. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forustumaður í liði flokksins sem berst sannarlega og heiðarlega fyrir sölu Ríkisútvarpsins og nefnir það iðulega í ræðum sínum að hann vilji að Ríkisútvarpið sé selt og kynnir þar stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann skilgreindi fyrir mér einkavæðingu og hann sagði einmitt þá, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að hlutafélagavæðingin væri einkavæðingin.

Ég las svo umsögn Ástráðs Haraldssonar sem er virtur hæstaréttarlögmaður og er lögfræðingur ýmissa stéttarfélaga sem tengjast málinu og ég hef ekki komið inn á í ræðu minni. Hann skilgreinir við hvað er átt. Ég tel það vera mjög nauðsynlegt, frú forseti, til þess að halda mönnum við efnið, til þess að hvorki ráðherrar Framsóknarflokksins né aðrir geti flúið frá því sem er að gerast með einhverjum öðrum skilgreiningum, flúið frá þeirri staðreynd að verið er að einkavæða Ríkisútvarpið.

Í grein Ástráðs Haraldssonar sem birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2006 segir, með leyfi forseta:

„Fyrir þinginu liggur nú frumvarp menntamálaráðherra um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ef frumvarpið verður að lögum verður þar með ákveðið að einkavæða starfsemi Ríkisútvarpsins. Í þessu varðar öngvu hver eignaraðild hins nýja félags verður heldur hitt að starfsemin verður eftir að Ríkisútvarpið ohf. tekur við henni ekki framar opinbers réttar eðlis heldur einkaréttar eðlis. Þannig færist starfsemin af sviði opinbers rekstrar yfir á svið einkarekstrar. Í því kerfi tvískipts vinnumarkaðar sem í gildi er á Íslandi hefur þessi formbreyting úrslitaáhrif að því er varðar alla réttarstöðu starfseminnar. Þetta er höfuðmálið en ekki það hvernig eignarhaldi hins nýja hlutafélags er háttað. Í þessari einkavæðingu felst m.a. að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gilda ekki framar um starfsemina og marka því ekki lengur réttarstöðu starfsmannanna. Lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka ekki framar til starfseminnar og stjórnendur hins nýja hlutafélags verða ekki fremur en aðrir stjórnendur hlutafélaga bundnir af ákvæðum stjórnsýslulaga í sýslan sinni. Starfsemin hefur þá verið einkavædd, flutt á svið einkaréttar og réttarstaðan sú sama og gildir um aðra starfsemi á almennum markaði.

Af einhverjum ástæðum hafa flutningsmenn tillagna um einkavæðingu Ríkisútvarpsins kosið að nefna tillögur sínar ekki réttum nöfnum. Reynt er að færa einkavæðinguna í búning sem er til þess fallinn að villa um fyrir þjóðinni. Þannig er talað um hlutafélagavæðingu (eins og það sé ekki einkavæðing) og mikið úr því gert að óheimilt verði að selja fyrirtækið. Það atriði skiptir þó harla litlu máli þegar grannt er skoðað. Meginatriðið er það að verði frumvarpið að lögum mun Ríkisútvarpið færast yfir á svið einkaréttar. Starfsmenn þess munu ekki framar njóta þeirrar ráðningarfestu sem þeir hafa notið sem opinberir starfsmenn og stofnunin mun starfa eftir sömu leikreglum og aðrir einkaaðilar.

Vandséð er hvernig Ríkisútvarpið getur til langframa varið sig gagnvart kröfum keppinauta um takmörkun eða afnám ríkisstyrkja sem því er ætlað að njóta í formi nefskatts. Við blasir að ákaflega erfitt verður að rökstyðja ríkisframlag sem ætlað er að standa undir svo stórum hluta rekstrarútgjalda fyrirtækisins sem hér virðist gert ráð fyrir. Að slíku framlagi sé aðeins varið til þess hluta starfseminnar sem fellur undir almannaþjónustuhlutverk þess. Þetta munu keppinautar Ríkisútvarpsins fyrr eða síðar láta reyna á fyrir samkeppnisyfirvöldum og dómstólum. Ég óttast því að með frumvarpi menntamálaráðherra sé enn ekki fundinn réttur farvegur til framtíðar fyrir Ríkisútvarpið.“

Mér finnst, frú forseti, þess vegna með ólíkindum þegar meira að segja einstakir ráðherrar koma hér í ræðustól og segja að ekki sé um einkavæðingu að ræða. Það er eins og menn séu farnir að skammast sín fyrir að kalla hlutina réttum nöfnum. Ég er hlynntur einkavæðingu þar sem hún á við og nefni hana þá bara því nafni. Ekkert bannar Alþingi, ríkisstjórninni að reka Bifvélaverkstæði ohf., enginn. Enginn mundi banna það. Við mundum kannski þá skilja að það bifvélaverkstæði yrði náttúrlega að lúta þeim almennu samkeppnisreglum sem giltu um önnur bifvélaverkstæði, ekki satt? Starfsmenn þess fyrirtækis, Bifvélaverkstæðis ríkisins ohf., yrðu bara að lúta nákvæmlega sömu kjörum og aðilar á almennum vinnumarkaði. Ég er ekkert að mælast til þess að íslenska ríkið fari að reka bifvélaverkstæði, alls ekki. En kannski skilja ráðherrar málið ef það er einfaldað niður í slíkt, þ.e. þegar form eru borin saman. Þá skilja menn að það er alveg sama hvað bifvélaverkstæðið heitir og hvort það er hlutafélagavætt, þó að það sé algjörlega í eigu ríkisins og skrifað sé skýrum stöfum að það megi aldrei selja það, þá lýtur það samt þeim samkeppnisreglum sem á markaði eru og fær á sig kærur frá öðrum bifvélaverkstæðum ef þar er verið að beita einhverjum bolabrögðum til að skekkja samkeppnisstöðu þeirra miðað við það. Þetta held ég að allir muni skilja. Nákvæmlega það sama gildir þegar búið er að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Hvort sem ríkið á það allt eða að hluta til þá lýtur það þessum einkaréttarlögum. Það er búið að einkavæða það. Þess vegna á að tala alveg grímulaust um það og svo verða menn bara að verja gjörðir sínar á réttum vettvangi og á réttum forsendum. Þetta hef ég heyrt hjá sjálfstæðismönnum að þeir viðurkenna. Ég hef heyrt þetta hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem viðurkennir að verið sé að einkavæða það og að þetta sé liður í að undirbúa það fyrir sölu. Þetta las ég líka — og vitnaði hér til þess — í því frumvarpi sem forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt, hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, núverandi formaður menntamálanefndar. Þeir hafa flutt frumvarp um hvernig skuli standa að því að selja Ríkisútvarpið. Fyrst skuli það hlutfélagavætt og svo skuli það selt. Þeir kalla þetta — þ.e. fyrirsögn þess kafla er „Einkavæðing Ríkisútvarpsins“.

Frú forseti. Þess vegna verð ég að segja að mér finnst alltaf dapurlegt — þetta á sérstaklega við um ráðherra Framsóknarflokksins sem þora hér ekki að koma fram undir réttum fána — að þurfa stöðugt að beita blekkingum varðandi málflutning sinn hér enda vita þeir sem er að meginþorri almennra framsóknarmanna í landinu er andvígur þessum gerðum flokksforustunnar. Kristinn H. Gunnarsson, hv. þingmaður Framsóknarflokksins — sá sem talaði rödd grasrótarinnar að mati formannsins í ræðu nýverið — sagði hér á þingi að hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins væri ekki í stjórnarsáttmálanum. Allar samþykktir flokksþinga Framsóknarflokksins hafa lagst gegn hlutafélagavæðingu. Ég las áðan upp nýja samþykkt frá því bara nú í haust, frá því núna skömmu fyrir jól, frá Sambandi ungra framsóknarmanna þar sem þeir leggjast gegn hlutfélagavæðingu Ríkisútvarpsins. En einhvern tíma árið 2005, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði, verður stefnubreyting og þingflokkur Framsóknarflokksins tekur einhliða og upp á eigin spýtur ákvörðun um að styðja hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, gjörsamlega umboðslaus af hálfu flokksmanna, félaga vítt og breitt um landið, til þeirra verka.

Frú forseti. Ég hefði viljað fara í gegnum ýmis fleiri atriði í þessu máli. Það er fróðlegt til dæmis að rifja upp hvernig hefur gengið til um síðustu einkavæðingar, um einkavæðingu á rekstri á flugvöllum landsins og á flugleiðsögninni með stofnun hlutafélagsins Flugstoða ohf. Það hlutafélag var líka stofnað og keyrt hér í gegnum þingið. Það hlutafélag er gjörsamlega háð og verður rekið af fjárlögum ríkisins. Hver ætlar að fara að taka að sér rekstur á flugvöllum landsins í samkeppnisrekstri? Samt velur ríkisstjórnin að einkavæða flugvellina og lendir svo í þessum miklu vandræðum hér um áramótin þegar öllu fólki var sagt upp og hlutafélag tekur við. Þá átti að einkavæða flugleiðsögn og rekstur flugvalla í landinu. Samgöngumannvirki, flugleiðsögn og flugvellir eiga ekki að vera í einkarekstrarformi. En þetta valdi ríkisstjórnin og situr uppi með mikið klúður og óleystan vanda. Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði einmitt í ágætri grein sem ég hér vitnaði til, að maður hlutafélagavæðir ekki ríkisrekstur sem er algjörlega háður ríkisframlögum á fjárlögum eða með föstum tekjustofnum eins og nefskatti. Það gerir maður ekki.

Sama á við um hlutafélagavæðingu á Matís, sem er enn óleyst þar sem sömu bellibrögðum var beitt, þ.e. að slá saman í eitt hlutafélagavætt fyrirtæki grunnþáttum sem áður voru unnir á fleiri stofnunum. Starfsfólki var sagt upp og því síðan boðin endurráðning á allt öðrum kjörum. Sama er með Ríkisútvarpið. Verði það gert að hlutafélagi eru öll starfskjör þessa fólks náttúrlega í upplausn og hér hefur verið ítarlega gerð grein fyrir því. Sérstakur kafli er svo inngrip Páls Magnússonar útvarpsstjóra. Hérna hefur ítrekað verið gert að umtalsefni hvernig hann hefur, trúlega að beiðni og að skipan menntamálaráðherra — enda hefur hann verið kallaður blaðafulltrúi menntamálaráðherra í þessum efnum — blandað sér beint í pólitísk deilumál. Hérna hefur það verið rakið og ég gæti farið ítarlegar inn á það og geri það í seinni ræðu minni.

Þetta var það meginmál sem ég ætlaði að koma að. Ég tel að við eigum nú að staldra við þó að ríkisstjórnin láti eins og hún sé hér inni á handboltavelli og keyri þetta frumvarp í gegn eins og menn væru að skora í handbolta, væri nýkomin inn á völlinn og bráðlægi á að skora og ekki skipti máli hvernig heldur bara með því að hnoða knettinum í markið. Þannig er nú framganga, finnst mér, ráðherra og forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum að tilgangurinn einn helgi meðalið, hvernig þetta er gert. Ég tel að við séum búin að fá nóg af einkavæðingunni. Við eigum að stöðva núna einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Hún er glapræði. Hún er glæpur gegn þjóðinni. Hún er glæpur gegn íslenskri þjóðarsál. Við skulum láta kjósa um þetta mál. Við skulum hér fallast á að verði þetta frumvarp keyrt í gegn eins og stefnir í að gildistöku laganna verði að minnsta kosti frestað fram yfir kosningar sem eru alveg á næsta leiti og að þá verði endanlega gert út um það hvort ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins heldur þá saman áfram eftir kosningar og keyrir þetta mál þá í gegn eða hvort nýir aðilar taki við á grundvelli nýs umboðs og komi í veg fyrir að þessi óskapnaður sem hérna er verið að berjast fyrir, einkavæðing Ríkisútvarpsins, nái endanlega fram að ganga.