133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:56]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Það er rétt, eins og ég gat um í minni ræðu, að það var hv. þingmaður sem fyrst dró það fram að þeir sem eingöngu lifa af fjármagnstekjum — nú kemur fram að þeir voru á síðasta ári 2.200 — munu sleppa við að greiða þennan nefskatt, þetta útvarpsgjald, gjalda keisaranum þetta gjald.

Ég hef áður sagt það, virðulegi forseti, að það hefur komið fram hjá sveitarfélögum að þeir sleppa líka við að greiða útsvar til viðkomandi sveitarfélags. Ég verð enn einu sinni að þakka hv. þingmanni fyrir að draga þetta fram og ég mun leggjast á sveif með henni og spyrja hæstv. menntamálaráðherra þegar hægt verður að spyrja hana út í þetta atriði, hvort ríkisstjórnarflokkarnir hafi gert sér grein fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægður með það hvað margir hafa miklar fjármagnstekjur. Það sýnir bara að ýmislegt er að gerast í þessu landi. Menn græða á tá og fingri á ýmsum þáttum, hlutabréfum og öðru slíku, fyrirtækjarekstri úti í heimi og eiga hlutabréf úti í heimi o.s.frv. Það er út af fyrir sig ágætt og ekkert að því. Hitt er annað að ég er ekkert endilega viss um að þessir aðilar séu mjög ánægðir með að þeirra 10% fjármagnstekjuskattur skuli ekkert renna til viðkomandi sveitarfélags sem þeir búa í, inn í þá félagsþjónustu og aðra samfélagslegu þjónustu sem þar er rekin. Ég er líka nokkuð viss um að þessir aðilar eru ekkert endilega að kalla eftir því að sleppa við að greiða nefskatt þegar hann kemur og ef hann kemur til Ríkisútvarpsins eða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta er hins vegar lapsus, þetta er galli í skattkerfinu sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert tekið á frekar en öðru vegna þess að þessi ríkisstjórn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum við alla þá tekjustofna og alla þá skatta sem hún (Forseti hringir.) hefur lagt á og hækkað undanfarin kjörtímabil.