133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:00]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil enn einu sinni þakka hv. þingmanni fyrir að hafa dregið þetta fram í umræðunni í gær. Ég gerði það að stórum hluta í máli mínu áðan þann möguleika og þá ókosti sem hér er verið að fara með. Það er kannski rétt í lok umræðunnar á þessum degi áður en við förum til annarra starfa það sem eftir lifir dags og kjördæmaþing og annað á morgun, að segja að ef menn halda að ekkert nýtt hafi komið fram í umræðunni sem hefur tekið alla þá tíma sem stjórnarflokkarnir og stjórnarþingmenn eru að röfla yfir, þá hefur veigamikið atriði verið dregið fram í umræðunni eins og með hina 2.200 einstaklinga sem munu sleppa við nefskattinn, sleppa við gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sleppa við að greiða útsvar til síns sveitarfélags. Ég tek það skýrt fram að ég er alveg handviss um að greiðendur fjármagnstekjuskatts eru ekki hrifnir af því að ekkert af skattinum renni til viðkomandi aðila, þ.e. til útvarpsins eftir 2009, í Framkvæmdasjóð aldraðra eða til viðkomandi sveitarfélags.

Núverandi ríkisstjórn er svo skattaglöð og kemur fram reglulega og hælir sér af því hve staða ríkissjóðs er góð og skuldir ríkissjóðs litlar. Það er auðvitað alveg hárrétt. En hvers vegna eru þær svona litlar? Vegna þess að ríkissjóður tekur alla þá skatta til sín sem mögulegt er að taka. Það er ekki tími til að fara út í skattheimtu af lántökum erlendis, þensluna, umframeyðsluna og allt það en ríkisstjórnin hefur setið og þakkað fyrir þá skatta sem hún hefur tekið og hún hefur tekið af öðrum. Hún hefur m.a. aukið skattheimtu aldraða og öryrkja. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir dró fram dæmi og ég þakka fyrir það en það er auðvitað verkefni okkar eftir helgi þegar umræða hefst um málið að draga þetta fram og spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í það hvort hún hafi gert sér grein fyrir vanköntunum á frumvarpinu.