133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

niðurstaða stjórnarskrárnefndar um auðlindir.

[10:35]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir niðurstaða stjórnarskrárnefndar. Í henni náðist einungis sátt um eina tillögu til breytinga á stjórnarskránni. Þessar fréttir eru mörgum mikil vonbrigði og þær eru það alveg sérstaklega í ljósi þeirra kosningaloforða Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar að sjávarauðlindir skyldu skilgreindar í stjórnarskrá sem þjóðareign. Þetta var eitt af helstu baráttumálum flokksins í þeim kosningum. Þessi stefna var staðfest á 27. flokksþingi Framsóknarflokksins í febrúar 2003 og loforðin gefin eftir að stóra nefndin svokallaða undir forustu núverandi formanns flokksins náði sáttum um þá leið. Þarna var sköpuð sátt eftir miklar deilur og sá sem leiddi sáttina hlaut mikið lof fyrir stjórnvisku sína og leiðtogahæfileika við að leysa þetta gríðarlega átakamál í flokknum. Kjósendur veittu flokknum þar með, og stefnunni, brautargengi í kosningunum.

Eftir kosningarnar féllst Sjálfstæðisflokkurinn á að fara þessa leið og um það ber vitni skýr yfirlýsing í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að ákvæði þessa efnis verði sett í stjórnarskrána. Nú eru þessi loforð svikin. Ég vil með þessari fyrirspurn gefa formanni Framsóknarflokksins, manninum sem leiddi sáttina fram í flokknum og mótaði stefnuna og hefur nú ábyrgðina á að koma henni fram, tækifæri til að skýra fyrir þjóðinni hvort hann ætli að láta samstarfsflokkinn í ríkisstjórn komast upp með að svíkja stjórnarsáttmálann og hljóta þar með það auma hlutskipti að svíkja sjálfur þá sátt sem hann leiddi. Allir aðrir flokkar sem aðild áttu að starfi nefndarinnar voru tilbúnir að standa að þessu máli. Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að það næði fram.

Spurningin er þessi: Getur formaður Framsóknarflokksins setið í ríkisstjórn með flokki sem hunsar sinn eigin stjórnarsáttmála og niðurlægir Framsóknarflokkinn með svo óbilgjörnum hætti?