133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

upplýsingar um fjárhagsstöðu RÚV.

[10:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins hefur verið alvarleg síðustu árin. Það er innbyggður halli þar í rekstrinum, og hann er ekki smár. Hann er upp á 200 til 500 millj. kr. á ári.

Hæstv. ráðherra veit vel að það þarf að fara í verulegar fjárfrekar endurbætur á tækjakosti Ríkisútvarpsins eigi það að geta farið í þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur haldið fram að eigi að gera, að fara úr hinu hliðræna kerfi í hið stafræna.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki svarað nokkru hér um spurningar sem ég hef lagt fyrir hana varðandi fjármögnun nýs dreifikerfis. Hvernig á að dreifa dagskrá Ríkisútvarpsins á næstu árum eftir að þessi breyting sem hún leggur til varðandi einkavæðinguna verður komin í gegn? Á bara að treysta á einhver einkafyrirtæki úti í bæ, eins og þar stendur, varðandi dreifingu Ríkisútvarpsins? Eða ætlar ríkisstjórnin að sjá til þess að hinar dreifðu byggðir og miðin fái skýrt merki með stafrænum hætti? Hvernig á þá að fjármagna það?

Er verið að gefa hér loforð upp á hundruð milljóna eða jafnvel meira án þess að (Forseti hringir.) það eigi að fara í gegnum Alþingi til umræðu? Eins og ég segi, ég átel hæstv. ráðherra fyrir að hafa ekki skilað svarinu og (Forseti hringir.) tel það allsendis óforsvaranlegt.