133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Umræðan hefur tekið drjúgan tíma og ástæðan er einkum sú að þetta er mjög vont frumvarp. Það er ekki að ástæðulausu sem þingið hefur tekið drjúgan tíma í umfjöllun um þetta frumvarp sem er svona vont. Þetta er gífurlega vont og þá er rétt að spyrja sig hvers vegna hæstv. menntamálaráðherra þráast svona við að fara áfram með það. Ég hef leitað skýringa víða og sú skýring sem er nærtækust er einfaldlega sú að hún hefur orðið afturreka með svo mörg mál. Hún sat á varamannabekknum þegar fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra var með fjölmiðlamálið og eftir margar breytingar aftur og aftur, og þinghald stóð fram á sumar, átti að senda það mál til þjóðarinnar. Forseti Íslands gat ekki skrifað undir það, það var svo slæmt. Hvað gerði Sjálfstæðisflokkurinn þá? Hann dró málið til baka. Mér finnst það mjög athyglisvert í ljósi þess að hæstv. menntamálaráðherra hefur talað í þingsölum um að lýðræðið ætti að ráða ferð. Þegar lýðræðið átti hins vegar að ráða för í því máli sem snertir alla fjölmiðla landsins treysti Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki til þess að láta þjóðina ráða því máli. Nei, það var dregið til baka.

Eins er með það mál sem við erum að ræða hér. Það er flokkur á Alþingi sem kallast Framsóknarflokkurinn. Hann er kosinn á þing með það að markmiði að Ríkisútvarpið skuli vera í eigu þjóðarinnar og ekki gert að hlutafélagi. Síðan virðist Framsóknarflokkurinn einhverra hluta vegna guggna á þessu og treysta sér ekki lengur til að standa við samþykktir flokksins frá bæði árinu 2004 og árinu 2003 minnir mig. Þar kemur það skýrt fram. Við í stjórnarandstöðunni höfum boðið þessum flokkum sem ganga þarna þvert á samþykktir sínar að gefa þjóðinni kost á því að kjósa um þetta mál, rétt eins og þjóðinni verði gefinn kostur á því að kjósa um það hvort vatnið eigi að verða séreign. Nei, hæstv. menntamálaráðherra treystir sér ekki í þetta. Hún treystir sér ekki til að gera þetta mál að kosningamáli og vill ekki að gildistöku málsins verði frestað fram yfir kosningar, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn treysti sér alls ekki til að láta fjölmiðlamálið ganga til þjóðarinnar.

Það eru fleiri mál sem hæstv. menntamálaráðherra hefur orðið afturreka með. Hæstv. menntamálaráðherra er þekkt fyrir mikið keppnisskap. Til marks um það nefni ég styttingu náms til stúdentsprófs í þrjú ár úr fjórum. Þegar manneskja með mikið keppnisskap hefur orðið afturreka heldur hún áfram með vont mál, bara vegna þess að það er sært stolt sem ræður för en ekki skynsemin. Það er engin skynsemi í þessu frumvarpi. Menn reka hér áfram mál sem mun auka á misskiptinguna, meira að segja með afnotagjöldum þar sem meiningin er að taka nefskatt af fólki. Framsóknarflokkurinn er með þessu máli að leggja nefskatt á landsmenn. Það er alveg ótrúlegt og ég mun fara í gegnum það mál, hvernig það mun bitna m.a. á bændum sem reka bú sín með kennitölu. Þarna er Framsóknarflokkinn að leggja fólkið í dreifbýlinu enn og aftur í einelti.

Þegar menn hafa orðið afturreka, bæði eins og með fjölmiðlafrumvarpið fræga sem mátti ekki fara með til þjóðarinnar og síðan styttingu náms til stúdentsprófs, sameinast innvígðir og innmúraðir sjálfstæðismenn um eitt frumvarp og að einhverju leyti drattast Framsóknarflokkurinn með. Þótt það gangi þvert á flokkssamþykktir Framsóknarflokksins reka þeir hér á eftir því og það er ekkert annað mál á dagskrá þingsins. Það er alveg með ólíkindum. Þótt þetta gangi þvert á samþykktir flokksins er Framsóknarflokkurinn með. Eflaust er það einungis vegna þess að sært stolt hæstv. menntamálaráðherra birtist í þessu frumvarpi. Það komast engin mál í gegnum þingið vegna þess að þau eru svo vond og þetta mál er engin undantekning frá því.

Það eru fleiri mál en fjölmiðlamálið og stytting stúdentsprófsins frá hæstv. menntamálaráðherra sem hafa gufað upp úr þinginu. Það má nefna Náttúruminjasafnið sem er lítið mál, er reyndar stórt mál en í augum hæstv. menntamálaráðherra er það í rauninni ekkert nema nafnið eitt, þetta náttúruminjasafn, eins og þjóðin veit. Þótt hæstv. menntamálaráðherra hafi lagt mjög mikla áherslu á það hefur hún ekki komið neinu til leiðar hvað það varðar. Hér er þetta mál, að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, það mál sem hæstv. menntamálaráðherra hefur algerlega bitið í sig að megi ekki gufa upp eins og hin málin þó svo að það sé alvont.

Enn fleiri mál má nefna, svo sem tónlistarhúsið. Ef allt væri með felldu í því máli stæði hæstv. menntamálaráðherra í fararbroddi í því að byggja upp tónlistarhús fyrir landsmenn. Nei, það mál hefur ekki komið inn í þingið. Það er á einhverju heimildaákvæði í fjárlögunum og maður spyr sig: Hvers vegna er hæstv. menntamálaráðherra ekki stoltari af þessu tónlistarhúsi en svo að það er eins og að hún láti sig hverfa þegar verið er að ræða það mál?

Síðan er hér ríkisútvarpsfrumvarpið sem er gríðarlega vont mál. Það er það m.a. vegna þess að það hefur sýnt sig að þó að þetta mál sé kannski ekki stórt í krónum talið hvað varðar að það auki á misskiptinguna kemur greinilega í gegn vilji Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar vegna þess að lagt er til að taka upp nefskatt. Um leið og fólk er komið yfir ákveðin tekjumörk þarf það að greiða 15 þús. kr. nefskatt sem leggst þá á fólk burt séð frá tekjunum sem það hefur yfir þessum þröskuldi. Það kemur niður á fjölmörgum heimilum. Ég hef tekið dæmi af fólki í sveitum en Framsóknarflokkurinn virðist ásamt Sjálfstæðisflokknum leggja fólk í sveitum í mikið einelti þessa dagana, bæði með því að svipta fólk eigum sínum með ótrúlegum landakröfum í gegnum þjóðlendur þar sem fólk er svipt þinglýstum eigum og með því að einhver nefnd manna virðist ekki hafa nokkra staðþekkingu á þeim landsvæðum sem verið er að gera kröfu til.

Ef þetta frumvarp verður óbreytt að lögum þurfa hjón sem búa í sveit með tvö börn yfir 18 ára aldri að greiða 60 þús. kr. fyrir að hlusta á Ríkisútvarpið sem kannski hefur einmitt ekki allt of góð hlustunarskilyrði á viðkomandi stað. Ef búið er rekið á kennitölu eins og algengt er orðið bætast við 15 þús. kr. Þarna birtist þessi skattheimta skýrt, það á alltaf að taka meira og meira af þeim sem hafa tiltölulega lægri tekjurnar en svo er annar hópur sem hefur algerlega sloppið. Það eru auðvitað þeir sem greiða einungis fjármagnstekjuskatt. Þetta er orðinn drjúgur hópur og það hefur komið fram í umræðunni að þetta eru 2.200 manns. Þeir eiga ekki að greiða, enda er þetta hópurinn sem bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa reynt að lyfta undir. Af hópnum sem hefur lægri tekjurnar, þeim sem býr mikið til í dreifbýlinu — ef menn skoða tekjuskiptinguna í landinu er orðið áberandi hvað tekjur eru lægri í dreifbýlinu en í þéttbýlinu — vill Framsóknarflokkurinn með þessu frumvarpi taka meira, enn meira til Ríkisútvarpsins sem þessi hópur hefur jafnvel minni aðgang að en aðrir landsmenn. Þetta finnst manni ákaflega ósanngjarnt. Þetta er ósanngjarnt en Framsóknarflokkurinn virðist gera þetta þrátt fyrir að hafa gengið til síðustu kosninga undir þeim merkjum að það eigi að standa vörð um Ríkisútvarpið. Þegar til kastanna kemur er ekki staðið við eitt eða neitt. Þá er rétt að velta fyrir sér: Er einhver munur á þessum flokkum, frú forseti? Er einhver munur á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum? Mér finnst rétt að menn spyrji sig þeirrar spurningar. Nú á að fara að einkavæða Ríkisútvarpið og framsóknarmenn ganga í það verk rétt eins og þeir gengu í það að leggja af Landssímann og seldu dreifinetið með þótt annað hafi verið rætt þegar gengið var til kosninga.

Ég er á því, frú forseti, að munurinn á stjórnarflokkunum sé alltaf að verða minni og minni og Framsóknarflokkurinn sé orðin hálfgerð B-deild í Sjálfstæðisflokknum. Það birtist m.a. hér í því að menn hafa kannski einhverja stefnuskrá fyrir kosningar en þegar gengið er inn í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum gildir sú stefnuskrá ekki. Hún er bara lögð til hliðar og stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins tekin upp. Hún gildir þannig að Framsóknarflokkurinn er, eins og maður segir, viljayfirlýsing sem skiptir akkúrat engu máli þegar til kastanna kemur.

Maður spyr sig: Hvers vegna hefur t.d. Framsóknarflokkurinn lagt áherslu á það að svipta bændur útræðisrétti sínum? Er það eitthvað í stefnuskrá Framsóknarflokksins? Nei, það er ekki í stefnuskrá Framsóknarflokksins en það er stefna Sjálfstæðisflokksins. Þá er hún tekin upp, rétt eins og með Ríkisútvarpið er stefna Framsóknarflokksins algerlega lögð til hliðar og tekin upp stefna Sjálfstæðisflokksins.

Það er fleira sem maður áttar sig ekki á. Var það stefna Framsóknarflokksins, frú forseti, að styðja árásina inn í Írak? Nei, það var ekkert í stefnuskrá Framsóknarflokksins en samt hafa þessir flokkar sameinast við það og það kemur nú á daginn í svari sem ég fékk við fyrirspurn í síðustu viku að hæstv. utanríkisráðherra virðist hafa lagt mikla fjármuni, á fimmta tug milljóna íslenskra króna, í að flytja hergögn til Íraks og það gerðist á árinu 2006. Samt sem áður gefur hún það út að hún sé einhver ljósmæðrautanríkisráðherra sem ætlar að senda ljósmæður og hjúkrunarkonur í friðargæslu út um allan heim. Þegar maður skoðar hins vegar útgjöld ráðuneytisins birtist stefnan og hún er enn þá hörð. Stefnan er að flytja hergögn til Íraks. Það er furðulegt að verða vitni að því að Framsóknarflokkurinn skuli í þessu ríkisútvarpsmáli leggja sína stefnu til hliðar og taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins. Menn reyna ekki einu sinni að réttlæta þetta. Það er nefnilega svo sérstakt.

Formaður Framsóknarflokksins fer undan í flæmingi þegar hann er spurður. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hann um daginn í þinginu — og hvað gerðist? Hann taldi að þingmaðurinn væri að gera að gamni sínu, að vera að spyrja hann út í það hvers vegna hann legði sína stefnu til hliðar. Það sýnir mér og sannar að það er svo léttvægt verk fyrir Framsóknarflokkinn að leggja sín stefnumál algerlega til hliðar og taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins í einu og öllu. Þeir eru orðnir svo vanir því. Rétt eins og þegar framsóknarmenn tala alltaf um að gera einhverjar endurbætur á kvótakerfinu sem er að leggja landsbyggðina í rúst og hefur lokað fyrir alla nýliðun í sjávarútvegi, svo er bara tekin upp stefna Sjálfstæðisflokksins, bændur sviptir útræðisrétti sínum, gengið með Sjálfstæðisflokknum í að svipta bændur eignarlöndum sínum og maður er nokkuð hissa á því hvað hægt er að ganga langt.

Hvað varðar þetta einstaka frumvarp birtist sú stefna ríkisstjórnarflokkanna að það á að selja Ríkisútvarpið. Gott og vel. Ef menn vilja selja Ríkisútvarpið verða þeir að koma hreint fram, ekki gera eins og þegar Landssíminn var seldur. Þá var sagt: Það á ekkert að selja hann. En hver varð raunin, frú forseti? Þetta var allt selt. Og hvað gerðist síðan í framhaldinu? Hefur símareikningurinn lækkað hjá fólkinu? Nei, hann hefur hækkað. Hvað er að gerast í þessu frumvarpi? Eru afnotagjöldin að lækka? Nei, þau eru að hækka og þau hækka tiltölulega mest hjá þeim sem hafa hlutfallslega lágar tekjur. Einn ákveðinn hópur sleppur og það er sá sem hefur einungis tekjur af fjármagni. Þetta er stefna ríkisstjórnarflokkanna og hefur m.a. verið staðfest af Ragnari Árnasyni hagfræðingi sem kom með athugun á því hvers vegna misskiptingin hefði aukist svona ógurlega. Það var í gegnum skattkerfið og fjármagnstekjurnar. Nú á að halda áfram að keyra þessa stefnu sem hefur verið staðfest og m.a. rannsökuð af vísindamönnum uppi í háskóla af ekki ómerkari mönnum en Stefáni Ólafssyni prófessor og umræddum Ragnari Árnasyni.

Að vísu getur Ragnar reiknað ýmsa hluti, svo sem varðandi fiskana í sjónum, sem hafa ekki gengið eftir en mér finnst að hann hafi þarna traustari reiknigrunn hvað varðar þessa misskiptingu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa komið á, markvisst að því er virðist, og hefur vaxið frá ári til árs. Hér er um markaða stefnu að ræða. Enn og aftur, frú forseti, mér finnst að menn eigi að koma hreint fram í þessu máli. Það er lágkúra að koma fram eins og flokkarnir gerðu þegar Póstur og sími var hlutafélagavæddur, Landssíminn seldur, þá stóð það ekki til í orði kveðnu þegar fyrirtækið var gert að hlutafélagi. Menn sóru það af sér. Eins sverja menn af sér nú. Það er ekki mikið mark takandi á þessum málflutningi og símareikningurinn hefur hækkað eins og áður segir og nú munu afnotagjöldin eflaust leggjast þyngra á þá sem hafa lægstu tekjurnar. Ég sé að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gleðst sérlega yfir því að þarna náist betur fram stefna Sjálfstæðisflokksins í skattamálum, þ.e. að taka skattana æ meira af þeim sem hafa lágu launin og minna af þeim sem hafa háu launin. Það kom nefnilega í ljós þegar gerð var úttekt á aukinni skattbyrði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem tekur alltaf meira og meira til sín af þjóðarkökunni að skattbyrðin hefur þyngst á alla landsmenn nema þá sem hafa 10% hæstu tekjurnar. Það er ekki endilega fólk sem er með há laun. Nei, það er fólkið sem hefur fjármagnstekjurnar og það er svo skrýtið að með þessu frumvarpi á meira að segja að halda áfram þegar komið er í útvarpið. Og hvað verður næst? Það er rétt að fólk spyrji sig þeirrar spurningar. Hvar ætla menn að taka næst? Hvar ber Sjálfstæðisflokkinn næst niður í að taka meira af þeim sem hafa lægstu launin til þess að deila síðan ójafnt út?

Maður spyr sig þeirrar spurningar. Í rauninni kemur fátt á óvart eftir að hafa lesið þetta frumvarp og þá stefnu sem má ekki hvika frá þó að hér hafi verið lögð fram mjög greinargóð rök með því að það eigi að slá af. Þá kemur á móti að hæstv. ráðherra hefur þurft að lúffa svo oft að nú finnst henni nóg komið. Nú er komið upp í henni eitthvert keppnisskap sem hefur hlaupið með hæstv. ráðherra í gönur.

Þegar við förum yfir einkavæðinguna fram að þessu sjáum við að hún er náttúrlega algerlega ábyrgðarlaus þar sem sjaldnast hefur verið spurt hvort tilboð hafi verið há eða lág þegar menn hafa selt banka, heldur hver kaupandinn hafi verið. Þegar m.a. Landsbankinn var seldur var lægsta tilboðinu tekið og svo seldu framsóknarmenn sjálfum sér auðvitað Búnaðarbankann sem síðar breyttist í KB-banka og heitir nú Kaupþing. Einn af þeim kaupendum hélt mjög dýrlega veislu um síðustu helgi og gaf ákveðna upphæð í sjóð til styrktar hinum og þessum mjög góðum málefnum.

Ég tel að þessum flokkum sé einfaldlega ekki treystandi. Hvað verður um Ríkisútvarpið, hver á að fá Ríkisútvarpið? Það er ekki efi í mínum huga að með þessu frumvarpi er verið að undirbúa sölu á Ríkisútvarpinu en ég velti fyrir mér hver eigi að fá að kaupa. Maður furðar sig á þessu. Dregin hafa verið upp fyrirtæki eins og S-hópurinn, t.d. þegar Búnaðarbankinn var seldur. Þá kom að vísu einnig til sögunnar kjölfestufjárfestir sem gufaði upp og enginn veit hvar endaði. Hvaða kaupandi verður dreginn upp þegar þetta ágæta fyrirtæki verður selt? Verður það t.d. gamli Tíminn? Verður hann allt í einu endurlífgaður þarna inni, eða verður það Tímahópurinn? Ég fór að velta þessu fyrir mér því að annað eins hefur nú gerst. Verður kominn einhver framsóknarfjölmiðill, eða hvað dettur mönnum í hug? Við urðum vitni að því fyrir nokkrum missirum að inn var dreginn sérstakur útvarpsstjóri sem átti að vera, skilst mér, fulltrúi Framsóknarflokksins. Nú fékkst annar maður til starfans sem hefur algerlega umpólast í ýmsum viðhorfum sínum til útvarpsreksturs. Má þar nefna hvort starfsemi Ríkisútvarpsins eigi að vera á auglýsingamarkaði og eitt og annað þannig að það er erfitt að fylgjast með málflutningnum hjá þessum ágæta útvarpsstjóra. Hann hefur tekið afstöðu með þessu frumvarpi og með sínum menntamálaráðherra og gegn stjórnarandstöðunni. Mér finnst visst áhyggjuefni fyrir Ríkisútvarpið að verða vitni að því að útvarpsstjóri skuli taka svona harða afstöðu gegn okkur í stjórnarandstöðunni og með ríkisstjórninni, sérstaklega þegar í ljós hefur komið við umfjöllun að þetta er vont frumvarp. Það er ekki gott að ætla að auka skattheimtuna enn meira á þá sem hafa lægstu launin og taka kannski 75 þús. kr. af heimilum bara fyrir Ríkisútvarpið á sama tíma og ekki á að taka eina krónu af þeim sem hafa hæstu tekjurnar. Mér finnst ekki skynsamlegt hjá núverandi útvarpsstjóra að taka svo harða afstöðu í þessu máli þegar frumvarpið er svona slæmt.

Það er rétt að velta fyrir sér þessum einkavæðingaráformum. Dæmin eru því miður þannig, t.d. með okkar ágætu banka sem voru seldir, að það er kannski rétt að rifja upp fleiri sölur. Það er mál fyrir dómstólunum núna og þess vegna ber manni auðvitað að tala varlega um það, frú forseti. Það er þegar Íslenskir aðalverktakar voru seldir. Skyndilega var einn af þeim sem stóðu í að selja, fulltrúi ríkisstjórnarinnar, Framsóknarflokksins, kominn í stjórn félagsins. Það leikur grunur, mjög sterkur grunur, á því að ákveðnum upplýsingum um verðmæti fyrirtækisins hafi verið haldið aftur þannig að þeir sem buðu í fyrirtækið sátu ekki allir við sama borð. Það hefur ýmislegt komið upp í þessum einkavæðingarmálum sem menn eiga að varast. Ég held að þessir flokkar sem nú ráða séu ekki með hreinan skjöld. Sérstaklega hefur hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, komið að þessum málum og fingraför hans eru víða, eins og í því máli hvað varðar Íslenska aðalverktaka. Hann átti þar fulltrúa í nefndinni og átti að gæta hagsmuna almennings en ekki úthluta þessum fyrirtækjum. Ef vafi lék á vinnubrögðum átti hann auðvitað að draga þetta til baka.

Þetta eru mál sem við í Frjálslynda flokknum teljum að þurfi að fara rækilega í gegnum en ég er ekki viss um að þeir sem eru í ríkisstjórninni séu okkur sammála hvað það varðar, hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn, enda hafa jafnvel sumir af æðstu ráðamönnum í þeim flokkum selt sjálfum sér. Það kom m.a. í ljós að annaðhvort þeir sjálfir eða nákomnir aðilar tengdust þessari sölu á Búnaðarbankanum þar sem venslamenn Halldórs Ásgrímssonar og jafnvel hann sjálfur áttu hlut í fyrirtækjum sem keyptu. Hann eignaðist þar hlut í Búnaðarbankanum og síðan innstu koppar í búri Framsóknarflokksins sem halda síðan ærlegar veislur og bjóða heimsþekktum tónlistarmönnum til veislunnar. Þetta eru staðreyndir málsins. Þarna er nokkuð örugglega farið með fjármuni á vafasaman hátt. Menn hafa komist í álnir við það að vera í innsta hring stjórnarflokkanna. Þetta eru mál sem þarf að ræða en eru því miður minna rædd en efni standa til.

Þetta mál snýr líka að starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Það sem hefur gerst er það að útvarpsstjóri, Páll Magnússon, hefur tekið afstöðu á móti stjórnarandstöðunni sem hefur talað um að þetta mál skerði réttindi starfsmanna. Veigamikil rök hafa verið færð fyrir því. Með þessu höfum við viljað draga fram hið rétta í málinu. Ef það er fullur vilji Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að skerða þessi réttindi eiga menn að tala um það á mannamáli, segja það og viðurkenna það í stað þess að draga orð annarra í efa. Útvarpsstjóri hefur með þessu tekið afstöðu með ríkisstjórninni á móti því að rætt sé um það fyrir opnum tjöldum og farið rækilega í gegnum það hvað þessi réttindi eru skert mikið.

Eflaust finnst stjórnendum, svo sem hæstv. menntamálaráðherra, að það þurfi að skerða þessi réttindi en þá eiga menn bara að viðurkenna það. Það er ekkert öðruvísi. Nú eru að koma upp fleiri mál, t.d. nú um áramótin var ríkisfyrirtæki breytt í hlutafélag, Flugstoðir ohf., sem olli miklum titringi. Nú er að vísu búið að semja í því máli og með þeim samningum viðurkenndu stjórnvöld að réttindi hefðu verið skert. Þau komu til móts við þær kröfur sem uppi voru um það sem starfsmenn héldu fram, að réttindi hefðu verið skert. Viðurkenning fólst í að uppfylla þær kröfur.

Svo er annað fyrirtæki sem eins er ástatt fyrir en er kannski minna í umræðunni. Eflaust er það ekki vegna þess að minni réttindaskerðing standi fyrir dyrum hjá þeim, heldur er það þannig að þeir starfsmenn í því ríkisfyrirtæki — ég er að tala um Matís — hafa ekki eins góða þrýstingsmöguleika á stjórnvöld og flugumferðarstjórar. Það er einnig með þessu frumvarpi sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn leggja alla áherslu á að koma í gegn þó svo að frumvarpið sé vont. Þeir menn koma ekki hreint fram hvað varðar það að þeir ætli sér að einkavæða þetta, skerða réttindi starfsfólks og í ofanálag er gengið á þá sem hafa lægri launin og heimta af þeim hlutfallslega hærra framlag en af þeim sem hafa hærri launin í þessu samfélagi. Með þessu frumvarpi er misskiptingin aukin.

Frú forseti. Ég geri mér fyllilega ljóst að flestir stjórnarliðar vita þetta, en þeir viðurkenna það ekki opinberlega. Það er eflaust vegna þess að þeir hafa komist upp með þennan leik. Menn hafa komist upp með þennan leik áður, svo sem þegar Landssíminn var seldur o.fl. þannig að menn ætla bara að reyna aftur. Hvað varðar hæstv. menntamálaráðherra er raunin einfaldlega sú að hér er haldið áfram með þetta mál vegna þess að hún hefur ekki komið neinu fram. Þess vegna er verið að kýla á þetta mál og í löngum umræðum eins og í síðustu viku og í fyrirspurnatíma áðan, á þremur korterum eða svo, gat hæstv. menntamálaráðherra ekki upplýst um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Samt sem áður á að ræða málin hér áfram. Það segir sína sögu að það á endilega að breyta einhverju. Enginn veit fjárhagsstöðu fyrirtækisins en samt sem áður er því haldið fram að það eigi að verða 15% eiginfjárstaða. Hvers vegna ætli sú tala hafi verið valin? Hún hefur bara verið gripin eins og hvað annað úr lausu lofti og passað vel inn í umræðuna en engir útreikningar liggja fyrir. Það viðurkenndi hæstv. menntamálaráðherra. Hún bara grípur einhverja tölu, 15%, 20% eða eitthvað bara. Það er eftir öðru í þessu máli og mér finnst að stjórnarmeirihlutinn ætti að íhuga hvort þetta mál eigi ekki að fara einfaldlega sömu leið og fjölmiðlamálið átti að fara, í dóm kjósenda. Kjósendur geta þá tekið afstöðu til þess hvort þeir vilja þessa ríkisstjórn með mál á bakinu eins og vatnið, þjóðlendumálið og þessa skattastefnu sem birtist m.a. í þessu frumvarpi. Til þess treysta stjórnarliðar sér ekki.

Ég átta mig ekki á þessari umræðu hjá núverandi hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að í rökstuðningi fyrir þessu máli er alltaf talað um að lýðræðið eigi að ráða ferð. Við hvað eru menn þá hræddir ef þeir geta ekki farið með þetta mál til kjósenda? Það er eitthvað, og ef til vill er það málið sjálft. Málið er vont og það sem ég óttast við það fyrst og fremst er að þegar þessi skattheimta byrjar verði grafið undan Ríkisútvarpinu. Það er eflaust þá vilji til að byrja með skattheimtuna og síðan er það svo ómögulegt að það þarf að selja það og þá endum við kannski með ekki hæsta tilboð heldur ákveðinn kaupendahóp sem verður valinn sérstaklega. Það er nefnilega reglan hjá þessum flokkum. Menn eru valdir til þess að eignast ríkisfyrirtæki. Þegar Búnaðarbankinn var seldur, einkavæddur, var tekið lán í ríkisbankanum Landsbankanum fyrir kaupunum. Þetta er eftir öðru. Þegar Landsbankinn var seldur voru teknar út vissar eignir eins og vátryggingafélagið, settar inn í klíku hjá Framsóknarflokknum og selt á tombóluverði. Hver veit nema þá verði byrjað á að taka bestu bitana út úr þessu ríkisútvarpi og þeir færðir einhverjum ákveðnum aðilum? Það væri þá bara eftir öðru hjá þessum flokkum.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri en hefði talið réttast fyrir hæstv. menntamálaráðherra að það væri komið hreint fram í þessu máli og menn færu yfir það hvernig þessi fjármögnun kemur ójafnt niður. Hún lendir á þeim aðilum sem síst skyldi, svo sem þeim sem hafa lágar tekjur og búa margir á heimili en dekurhópur framsóknar- og sjálfstæðismanna sleppur í þessu frumvarpi og þarf ekki að greiða neitt meðan stærri fjölskyldur þurfa að greiða miklum mun meira en áður.