133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[15:03]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Ég vil við 1. umr. málsins taka undir að mér finnst skilaboðin sem felast í frumvarpinu jákvæð. Það hefur lengi verið í umræðunni að við þyrftum að bregðast með einhverju móti við vaxandi óvirðingu og ofbeldi gegn lögreglumönnum. Lögreglumenn hafa bent á að þetta sé jafnvel farið að aukast og þess vegna er rík ástæða fyrir okkur hér á þingi að taka þetta til umræðu.

Mikilvægt er að hafa í huga að árás á lögreglumann er ekki einungis árás á persónu hans heldur er líka verið að vega að almannahagsmunum sem eru verndaðir í lögum. Því er verið að ráðast á valdstjórnina, ef svo mætti segja. Það sem skiptir máli er að við tökum alvarlega á slíku og að lögreglumenn og fleiri hér á landi sem fara með sambærilegt vald geti fundið fyrir tilhlýðilegri refsivernd þegar kemur að lögunum sjálfum. Því er um ríka hagsmuni að ræða sem snerta almannahagsmuni.

Við í allsherjarnefnd munum skoða þá leið sem hæstv. dómsmálaráðherra mælist til að við förum til að ná því markmiði. Við fljótan yfirlestur virðist breytingin vera sú að refsingin er þyngd úr sex árum í átta ár. Í því felast ákveðin skilaboð til dómstóla að taka jafnvel harðar á slíkum málum. En það er líka umhugsunarvert hvort þetta sé rétta leiðin til að ná því markmiði, hvort til staðar séu einhverjar aðrar leiðir til að auka refsiverndina, því afar ólíklegt er að það reyni á svo þunga dóma í þessum málum nema í algerum undantekningartilvikum. Fróðlegt væri að vita ef hæstv. dómsmálaráðherra hefur það á takteinum hvort hann þekki dómafordæmi hvað þetta varðar, hvaða dóma við höfum verið að sjá þegar kemur að ofbeldi gagnvart lögreglumönnum, tollgæslumönnum o.s.frv. Væntanlega eru refsingarnar fyrir slíkt ofbeldi talsvert vægari en núverandi lög gera ráð fyrir, en ég vil hins vegar ekki gera lítið úr því að þegar löggjafinn grípur til þess ráðs að þyngja hámarksrefsingu og mér finnst að dómstólarnir eigi að taka mið af því. Þetta sást m.a. þegar refsihámark í fíkniefnamálum var þyngt á sínum tíma, þá virtust dómar í þeim málaflokki þyngjast. Ég hef talað fyrir því að við beitum þeirri tækni gagnvart dómstólunum, sem að sjálfsögðu eru sjálfstæðir. En við ættum að beita þessari tækni til að koma skilaboðum frá löggjafanum til dómstóla í fleiri málaflokkum, eins og í kynferðisafbrotamálum þar sem um er að ræða skammarlega lága dóma, eins og þjóðin þekkir, sem bjóða margs konar hættu heim, m.a. að menn taki einfaldlega lögin í sínar eigin hendur. En fyrst og fremst særa dómar í þeim málaflokki réttlætiskennd þjóðarinnar allverulega.

Ég tel ítrekunarheimildina í c-lið 1. gr. sömuleiðis jákvæða. Hún lýtur að því að hægt sé að hækka refsingu um allt að helming ef viðkomandi hefur gerst áður sekur um brot á þeirri grein. Þetta er mikilvæg refsiþyngingarástæða sem er ánægjuleg viðbót, að mínu mati. Ég held að ef við í allsherjarnefnd höfum tíma á þessu stutta þingi ættum jafnvel að taka umræðu um aukin úrræði fyrir lögreglu. Við þurfum á einhvern hátt að bregðast við þeirri stöðu sem er í dag og hlusta að sjálfsögðu á lögreglumennina og þá sem þekkja hvað er að gerast úti í bæ. Við ættum að fara í umræðu um hvort ástæða sé til að auka úrræði lögreglu, innan skynsamlegra marka auðvitað. Hér þarf alltaf að vera á ferðinni ákveðið hagsmunamat. Við þurfum að gæta að friðhelgi einkalífsins, mannréttindum o.fl. Við þurfum því að fara mjög varlega þegar kemur að lagabreytingum. Hins vegar er umræðan þörf og ástæða til að nefna ýmsa þætti. Bent hefur verið á að lögreglan mætti kannski vera betur í stakk búin að bregðast við með auknum úrræðum. Ekki er langt síðan við ræddum við hæstv. dómsmálaráðherra um notkun á tálbeitum og á kannski vel við í ljósi þeirrar umræðu sem hefur sprottið af Kompássþættinum í gær. Ég tel það fyllilega koma til greina að lögreglan hafi sérstök úrræði í baráttunni gegn barnaníðingum. Í löggjöf okkar er víða tekið tillit til barna og barnaverndar með sérákvæðum og má færa efnisleg rök fyrir því að hugsanlega ættu sérstök úrræði gagnvart þessum málaflokki að vera fyrir hendi. Það má ekki gera lítið úr þeim varnaðaráhrifum að hafi lögreglan vel skilgreindar heimildir til notkunar tálbeitu í þeim málaflokki sem lýtur að kynferðisafbrotum gegn börnum, gæti sú vitneskja almennings um slíkt jafnvel fælt viðkomandi barnaníðinga frá tilraunum til slíkra glæpa og með því einu væri mikið unnið.

Einnig hefur verið rætt um skýrari lagareglur um notkun upptökutækja. Við höfum oft tekist á við hæstv. dómsmálaráðherra um símhleranir og hvaða leiðir er best að fara í sambandi við þær. Þar rekumst við alltaf á þetta hagsmunamat sem allir sem koma nálægt þess konar umræðu þurfa að fara í gegnum. Sömuleiðis hefur verið bent á úrræði sem kennd eru við austurrísku leiðina, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt áherslu á og ég styð, og mig langar til að nefna það í samhengi við þetta. Hún lýtur að því að fjarlægja ofbeldismann af heimilum í ofbeldismálum og þar erum við að vernda einn borgara frá öðrum borgara. En við þurfum líka að vernda borgara frá ríkinu, sem er hinn vinkillinn.

Önnur rannsóknarúrræði lögreglu eða húsleit, hald á munum og handtaka og fleira er eitthvað sem við ættum líka að skoða hvort þarfnast einhvers konar breytinga. En auðvitað þarf að fara varlega í ljósi stjórnarskrárbundinna réttinda. Við þurfum einnig að huga að því hvernig við náum í höfuðpaurana á tilteknum sviðum glæpa og þá á ég ekki síst við einstaklinga sem stjórna fíkniefnamarkaðnum á Íslandi. Það virðist vera frekar erfitt að ná í þá einstaklinga sem skipuleggja slíka starfsemi hér á landi. Gríðarlegur ótti fylgir þeim heimi og menn segja seint til síns höfuðpaurs, þ.e. ef þeir á annað borð vita hver hann er. Ég vona að ég fari rétt með að í Danmörku varð sú vinna í rauninni talsvert auðveldari eftir að menn fóru að einbeita sér því að reyna að ná í fjármagnið sem þeir einstaklingar auðgast á af slíkri starfsemi. Og það er eitthvað sem við ættum að skoða, hvernig hægt er að elta peningana, ef svo mætti segja, til að ná í viðkomandi einstaklinga og geta komið til greina einhvers konar aukin úrræði fyrir lögreglu í þeim efnum.

Ég er við 1. umr. þessa máls jákvæður gagnvart því. Við þurfum að taka harðar á lögregluofbeldi. Ákveðin umræða þarf að eiga sér stað í samfélagi okkar um sífellt minnkandi virðingu gagnvart lögreglumönnum, eins og þeir hafa sjálfir bent á þegar þeir eru að bregðast við einhverjum atburðum. Þetta tengist náttúrlega hinu meinta agaleysi í samfélagi okkar og einstaklingar sem verða fyrir afskiptum af lögreglu verða að átta sig á því að það er dauðans alvara að ætla að hóta lögreglumanni eða leggja hendur á hann. Gerist það er líka ástæða fyrir dómstóla að taka hart á því í ljósi þeirra hagsmuna sem eru þarna að baki því þeir liggja ekki einungis í líkamlegum eða persónulegum hagsmunum viðkomandi opinbers starfsmanns heldur lúta þeir að valdstjórninni sjálfri og almannahagsmunum sem við teljum flest ástæðu til að vernda sérstaklega.