133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

dómstólar og meðferð einkamála.

496. mál
[15:26]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt ágætt í frumvarpinu, sérstaklega að fjölga dómurum til að tryggja skilvirkni dómstólanna. Annað mál sem snertir skilvirkni dómstólanna er náttúrlega stærð þeirra og hvernig þeim er skipað niður.

Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvers vegna gerð er tillaga að því í frumvarpinu að Fjallabyggð heyri undir dómstól Norðurlands eystra en ekki Norðurlands vestra því ég get ekki séð betur en að það sé fámennara svæði. Ef Siglufjörður sem heyrir nú, ef ég man rétt, undir dómstól Norðurlands vestra yrði tekinn frá því umdæmi verður dómstóll Norðurlands vestra enn fámennari og eflaust þá nýtast kraftar þess dómstóls ekki sem skyldi. Leiða má líkur að því að ef Siglufjörður og Ólafsfjörður færast yfir í Norðurland eystra verði tiltölulega fleiri um þann dómstól en á Norðurlandi vestra.