133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

dómstólar og meðferð einkamála.

496. mál
[15:30]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla og lög um meðferð einkamála. Mælt var fyrir frumvarpinu í fyrra. Það var í fyrsta skipti, að ég best veit, en allsherjarnefnd komst ekki í að ljúka umræðu um málið innan nefndarinnar. Þess vegna fáum við mál aftur fyrir þingið með nokkrum breytingum eins og segir í greinargerð frumvarpsins. Við munum fara yfir það í allsherjarnefndinni.

Fyrsta atriðið sem mig langar til að tæpa á við 1. umr. um málið er hið aukna hlutverk aðstoðarmanna héraðsdómara. Hér er sannarlega bætt við. Segja má að um sé að ræða mjög efnismikla breytingu sem muni strax hafa mikil áhrif á störf dómstóla. Einnig ber að vekja sérstaka athygli á því að þetta frumvarp gerir ráð fyrir að aðstoðarmenn geti lokið málum endanlega. Það er nýmæli. Að sama skapi verði aðstoðarmenn dómara einnig með heimild til að úrskurða um gæsluvarðhald. Í eðli sínu er gæsluvarðhald mjög róttækt rannsóknarúrræði. Eðli málsins samkvæmt er um að ræða saklausan einstakling sem settur er í fangelsi tímabundið vegna rannsóknarhagsmuna. Hér er gert ráð fyrir að aðstoðarmenn geti úrskurðað um slík úrræði í stað dómara eins og í núgildandi lögum.

Aukið hlutverk aðstoðarmanna héraðsdómara er réttlætt í greinargerð með ýmsum rökum, þar á meðal með auknu hagræði og skilvirkni. Hér komum við aftur að því hagsmunamati sem við stöndum alltaf frammi fyrir, sérstaklega í málaflokki dómsmálaráðuneytisins. Hér erum við að tala um aukið hagræði, skilvirkni og jafnvel sparnað gagnvart réttaröryggi. Spurningin er hvort það sé að öllu leyti tryggt og hvort öll þau réttindi sem þurfa að vera fyrir hendi þegar kemur að þessum málaflokki séu tryggð. Þetta þurfum við auðvitað alltaf að hafa í huga.

Við sjáum að samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi er talið að það hafi í för með sér tímasparnað og spari fjármuni. Það er kannski gott og vel en á móti má spyrja sig hvort nægilegar röksemdir séu til að fara þessa leið. Við munum skoða þetta vel og vandlega í allsherjarnefnd. Ég vil því ekki fella neinn dóm við 1. umr. um hvort þetta er skynsamlegt eða ekki. Við munum einfaldlega ræða kosti og galla þessa fyrirkomulags og þær röksemdir sem hér búa að baki. Með auknu hlutverki aðstoðarmanna héraðsdómara er einnig reynt að tryggja sjálfstæði þeirra, m.a. verði einungis hægt að segja aðstoðarmanni héraðsdómara upp með dómi. Spurningin er hvort í því felist of þunglamalegt kerfi en hins vegar vil ég undirstrika að eigi aðstoðarmenn dómara að fá auknar valdheimildir, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, þá þarf að tryggja sjálfstæði viðkomandi aðstoðarmanns. Hlutverk hans verður bæði nýtt og talsvert meira. Þetta er mjög áhugaverð breyting sem hæstv. dómsmálaráðherra leggur til og snertir ákveðin grundvallaratriði.

Í 2. gr. er einnig áhugaverð breyting sem lýtur að frestun á birtingu dóma. Ég vil lýsa efasemdum mínum um þær breytingar. Þetta er talsvert þrengra, að mig minnir, en greinin var í frumvarpinu sem hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram í fyrra, þótt ég hafi ekki farið í mikinn samanburð milli þessa frumvarps og hins frumvarpsins. Hér er gert ráð fyrir — ég skal bara lesa þetta:

„Dóm Hæstaréttar, vegna kæru á úrskurði kveðnum upp skv. 87. gr., sbr. 86. gr., 90. gr., sbr. 89. gr., eða 103. gr. laga um meðferð opinberra mála skuli ekki gefa út fyrr en mánuður er liðinn frá uppkvaðningu hans.“

Þetta er 3. mgr. 2. gr. um að dóm Hæstaréttar samkvæmt kæruúrskurði kveðnum upp samkvæmt 87. gr., samanber 89. gr. eða 103. gr. laga um meðferð opinberra mála skuli ekki gefa út fyrr en mánuður er liðinn frá uppkvaðningu hans. Dóma sem lúta að rannsóknarúrræðum á ekki að birta fyrr en mánuður er liðinn. Þetta er mjög afdráttarlaus regla sem hérna er lögð til. Eins og staðan er í núgildandi lögum þá minnir mig að það sé svigrúm til að fresta birtingu dóma í þessum málum ef lögreglan fer fram á það og dómstóll er sammála röksemdum hennar. Ég átta mig ekki alveg á við hvaða vanda hér er verið að bregðast ef þetta er rétt munað hjá mér, að hægt sé að koma í veg fyrir að þessir dómar verði strax opinberir. Það má spyrja sig af hverju við gerum þetta svona afdráttarlaust, að þessir dómar skuli einfaldlega ekki gefnir út fyrr en mánuður er liðinn frá uppkvaðningu þeirra. Hér vegast á tvenns konar hagsmunir. Það er spurning hvort niðurstaða dómsins eða sjálfur dómurinn muni jafnvel spyrjast út áður og þá til einstakra fjölmiðla en ekki til allra. Sumir fjölmiðlar gætu haft betri aðgang að dómnum, t.d. ef hægt er að fá dóminn frá málsaðilum sjálfum á meðan aðrir fjölmiðlar sitja ekki við sama borð hvað það varðar. Svo er jafnvel hætta á að út spyrjist afbökuð útgáfa af niðurstöðu dómsins ef fjölmiðlar fá t.d. rangar upplýsingar um innihald hans og það eru ákveðin grundvallaratriði.

Hingað til hafa dómar verið birtir á sama hátt og lög. Það er mjög ríkt í okkar kerfi og í hinu vestræna kerfi að dómar skuli vera opinberir og réttarhöld sömuleiðis nema sérstakar ástæður séu fyrir öðru. Það er því ríkur þáttur í umfjöllun fjölmiðla um niðurstöðu dómstóla að aðgengi þeirra að dómi sé hvað best. Við sjáum að umfjöllun fjölmiðla um niðurstöðu dóma er mjög mikilvæg. Þetta skapar sömuleiðis ákveðið aðhald og eftirlit með þessu þriðja valdi ríkisvaldsins. Þannig er kannski ástæða til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvað kalli á þessa afdráttarlausu reglu um að slíkir dómar skuli ekki birtir fyrr en mánuður er liðinn frá uppkvaðningu hans, sé það rétt munað hjá mér að hægt sé að bregðast við með því að fresta birtingu dómanna samkvæmt núgildandi lögum ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess, lögreglan fer fram á það og dómari fellst á röksemdirnar. Þetta laut að 2. gr.

Mig langar á þessu stigi einnig að lýsa yfir ákveðnum efasemdum varðandi bann við myndatökum í dómhúsi í 7. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum með þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir nýmæli um bann við myndatökum og öðrum upptökum í dómhúsum. Undanskildar eru þær upptökur sem fara fram á vegum dómstólsins sjálfs, og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eðlilegar eru við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómstjóri geti heimilað myndatökur og aðrar upptökur í einstök skipti með nánar greindu skilyrði, og er þar átt við upptökur er ekki snerta aðila dómsmáls, sem eru í dómhúsinu vegna málsins. Má hér hugsa sér myndatöku vegna almennrar fréttar um dómstólinn eða viðtals við dómara og svo framvegis.

Mjög hefur færst í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum og vitnum í dómsmáli þegar þeir sinna erindum sínum í dómhúsum. Einkum á þetta við um sakborninga í opinberum málum. Þá er alkunna að þetta er mjög fallið til þess að valda þeim, einkum hinum síðastnefndu, ama og óþægindum. Hafa sakborningar af þessum sökum mjög freistað þess að hylja andlit sín er þeir ganga í dómsal. Á síðustu árum hefur jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr eru opnaðar á meðan á þinghaldi stendur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Hefur reynslan sýnt að í þeim tilfellum hefur hinn ákærði iðulega freistað þess að hylja andlit sitt einnig við þau tækifæri. Leiðir það aftur til þess að hann þarf jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti á meðan á þinghaldinu stendur, í stað þess að einbeita sér að málsvörn sinni. Þykir þessi aðstaða vera til þess fallin að auka á ójafnvægi málsaðila.“

Við sjáum að markmið þessara nýmæla í frumvarpinu er að draga úr óþægindum málsaðila. En það má velta fyrir sér hvort þetta úrræði, sú leið sem hæstv. dómsmálaráðherra býður upp á nái endilega því markmiði. Það má vel hugsa sér að í stað þess að teknar séu myndir af viðkomandi í dómhúsinu þá verði einfaldlega teknar myndir af viðkomandi þegar þeir ganga í dómhúsið. Þá er spurning hvort menn nái því markmiði sem að er stefnt. Í sjálfu sér er þetta róttæk aðferð sem virkar kannski ekki í ljósi þess hvernig fjölmiðlar munu án efa bregðast við, verði þetta að lögum. Þá spyr maður sig hvort við eigum að fara þá leið yfirleitt, í ljósi þeirra röksemda sem eru að baki þessu ákvæði.

Á sínum tíma lýstu blaðamenn efasemdum með þetta nýja úrræði. Þegar um er að ræða starfsemi fjölmiðla og sérstaklega með hverjum hætti á að hefta starfsemi þeirra þá þurfum við að fara mjög varlega. Því er hægt að taka undir það sem formaður Blaðamannafélagsins sagði í fyrra, að skoða þyrfti betur hvort þetta næði tilætluðum markmiðum. Hvað varðar þessar myndatökur þá held ég að það verði erfitt að ná því markmiði út af því að fjölmiðlar muni einfaldlega laga sig að þessum nýja veruleika og myndirnar verði einfaldlega teknar af viðkomandi á leið í dómhúsið. Óþægindin verða eftir sem áður til staðar, ef það er meginröksemdin fyrir því að gera þessa lagabreytingu. Auðvitað verður ekki hægt að koma í veg fyrir að myndir séu teknar af einstaklingum þar sem þeir er á almannafæri.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra við 1. umr. Við þurfum að fara vel yfir hið nýja hlutverk aðstoðarmanna héraðsdómara eins og ég gat um áðan. Sömuleiðis þarf að skoða 2. gr. sem lýtur að birtingu hæstaréttardómanna. Síðan þarf að skoða 7. gr. sem lýtur að banni á myndatöku í dómssölum. Þetta vekur talsverðar spurningar.

Að sjálfsögðu eru önnur áhugaverð álitamál í frumvarpinu og ef hæstv. dómsmálaráðherra talar aftur í umræðunni, þar sem hann minntist aðeins sjálfur á millidómsstig eða millidómsstól, þá væri fróðlegt að heyra skoðun hans á upptöku sérstakra dómstóla, jafnvel sérdómstóla, hér á landi. Í andsvari áðan var komið inn á stjórnsýsludómstól. Það kemur reglulega upp í umræðunni hvort ástæða sé til að hafa sérstakan dómstól fyrir ungmenni. Við vitum að sakhæfisaldur á Íslandi er 15 ára. Kalla aðstæður á að við höfum sérstakan dómstól fyrir ungmenni sem félli betur að sérstöðu þeirra mála er um er að ræða unga afbrotamenn? Ég er ekki að segja að þessi dómstóll eigi að hafa sérstök úrræði en hins vegar má alveg koma því að í umræðunni í framhjáhlaupi að það er sérkennilegt, a.m.k. að mínu mati, að dómstólar hafi ekki heimild til að dæma til samfélagsþjónustu eins og er nánast í öllum öðrum Evrópulöndum. Slíkt úrræði mundi henta afskaplega vel þegar kemur að ungum afbrotamönnum. Það yrði án efa nýtt af sérstökum dómstól sem sérhæfði sig í ungmennum. Slíkur dómstóll gæti hugsanlega beitt hinni svokölluðu sáttameðferð í meiri mæli en hefðbundinn dómstóll. Fróðlegt væri að heyra afstöðu hæstv. dómsmálaráðherra til sérdómstóla með ákveðna sérstöðu og sérhæfingu.