133. löggjafarþing — 57. fundur,  22. jan. 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[16:06]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir ræðu hæstv. dómsmálaráðherra. Verið er að ræða um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í þeirri nefnd sem vann að þessu lagafrumvarpi. Einnig er rétt að það komi fram að ég var stundum með örlítinn fyrirvara við málið en það var vegna þess að við ræddum um stöðupróf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt. Þau mál verða um tvö ár í geymslu eða varðveislu og verða tekin upp síðar.

Aðalrökin fyrir því að ég var með fyrirvara eru þau að í rauninni þarf að koma einhverju heildrænu skikki á þau mál. Norðmenn — af því að nefndin skoðaði öll norrænu lögin, í Evrópu og víðar — eru með 300 tíma ókeypis fyrir þá sem vilja sækja slík námskeið. Ég held að ef einhvern tíma á að koma skikki á þessa hluti og ef á að skylda þetta með þessum hætti, þá eigi það hreinlega allt að vera á ábyrgð ríkisins þó svo að einhverjir aðrir sinni kennslunni eða námskeiðinu og engin fjárhagsleg hindrun sé í slíku. Hins vegar verðum við alltaf með ákveðnar undanþágur hvað varðar ríkisborgararéttinn í þessum efnum, sama hversu mikil skylda verður lögð á. Makar fá t.d. ríkisborgararétt eftir þrjú ár og það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að þeir læri okkar ylhýra flókna mál á svo stuttum tíma, það er því ákveðinn hópur. Það eru þeir sem koma frá ólíkum málsvæðum, t.d. Filippseyjum, Tælandi, þeim heimi sem er fyrir utan EES, þ.e. þeir sem eru með allt annað skrifmál. Einnig gamalt fólk eða fatlaðir einstaklingar o.s.frv. Það munu því alltaf verða ákveðnar undanþágur í þessu efni og það er afar brýnt að svo sé.

Það var mjög ánægjulegt að vinna í nefndinni, það verður að segjast eins og er, og mjög gaman að kemba í gegnum þetta. Þó að ég og hv. þm. Bjarni Benediktsson séum búin að vera á síðustu árum í svokallaðri undirnefnd allsherjarnefndar sem hefur verið með þessi ríkisborgaramál, þá var mjög fróðlegt að fara í gegnum þetta. Mjög margt sem kom fram í vinnu okkar þar gátum við nýtt í nefndinni. Ber þá kannski hæst c-liður 5. gr. hvað varðar ýmis brot, t.d. ökuleyfissviptingu o.s.frv., þannig að þau mál hafa ekki öll þurft að koma til þingsins. Nú getur ráðuneytið, samkvæmt þessu ef af verður, samþykkt þetta hjá sér.

Einnig er mjög mikilvægt og það var mjög haft í huga að ríkisborgaralögin yrðu gerð gegnsærri því þau mega ekki vera of flókin fyrir þá sem þurfa að nota þau. Við skulum heldur gleyma því að ekki kjósa allir að verða ríkisborgarar. Þó svo að íslenskur ríkisborgararéttur sé mjög góður, hið íslenska vegabréf, þá er fullt af fólki sem vill halda sínu og vera á þeim skilyrðum sem það kýs. Hins vegar skilur maður mjög vel að þeir sem skoma frá erfiðum heimalöndum og hafa erfið vegabréf — ég lenti í því um daginn þegar ég fór á vegum Sameinuðu þjóðanna til Víetnams að einn starfsmaður þeirra frá ákveðnu landi hefti för hópsins um þrjá tíma í hverri einustu flughöfn sem farið var um, bara vegna vegabréfs þessa eina starfsmanns. Og þá rann þetta svolítið upp fyrir manni að auðvitað skiptir þetta máli. Þetta skiptir miklu máli fyrir fólk sem er t.d. að vinna í alþjóðasamfélaginu. Það hefur komið mjög skýrt fram í þessum ríkisborgaraleyfum okkar, að allt þetta hámenntaða, flotta fólk sem er að sækja um íslenskan ríkisborgararétt og vinnur hér og er kannski að vinna í lyfjaiðnaðinum, þrýstir frekar á að fá ríkisborgararétt og á þar fyrir utan kannski íslenskan maka. Það fólk vill fá ríkisborgararéttinn fyrr vegna þeirra hindrana sem þess eigið vegabréf veldur. Það er því mjög margt í þessu.

Hæstv. dómsmálaráðherra hefur farið yfir þær breytingar sem við vorum með. Kallað var til margt fólk til að ræða þessi mál, t.d. frá Alþjóðahúsi og Rauða krossinum. Það þarf alltaf að vera á vaktinni með flóttamannahópana og alla þá hópa sem gætu átt undir högg að sækja. Þar þurfum við alltaf að vera á vaktinni og það tel ég að nefndin hafi verið. Þrátt fyrir að einhver uppfylli ekki öll skilyrði, uppfyllir kannski árafjöldann en ekki eitthvað annað, þá er hægt að veita undanþágur og einstaklingar geta beðið um að málinu sé vísað til þingsins og það getur líka farið í gegnum hæstv. dómsmálaráðherra. Við þurfum því aðallega að hafa undirlagið í lagi. Þessi mál eru oft mjög tilfinningarík og geta vafið upp á sig.

Þetta á við, eins og ég segi, fyrst og fremst um ríkisborgarana. Ég tel að gegnsæið skipti meginmáli. Það verður gaman að halda áfram að vinna málið í nefndinni og þá fáum við eflaust líka nákvæmari umsagnir eftir að frumvarpið er tilbúið. Yfirleitt þarf alltaf að fjalla um einstök mál með undanþágum og spurning hvort ætti að skoða það að setja það með einhverjum hætti inn í lögin, t.d. varðandi þá einstaklinga sem hér búa og eru búnir að uppfylla skilyrði um tíma en hafa farið utan í eitt ár t.d. sem lið í framhaldsnámi sínu, þá er það rof á búsetu og fólk þarf að byrja upp á nýtt. Við höfum skoðað slík mál og reynt að leiðrétta.

Því er skemmtileg vinna fram undan hjá hv. allsherjarnefnd og ég efast ekki um að við munum ræða allar þær tillögur og breytingar sem fólk mun koma með í umsögnum af opnum huga og skilningi, því að það sem skiptir máli er að lögin séu gegnsæ og skilvirk fyrir þá sem þurfa að nýta sér þau.