133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:33]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég er algerlega undrandi á þessum orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem er líka nefndarmaður í menntamálanefnd og þar fyrir utan hefur hún tekið þátt í atkvæðagreiðslu t.d. um fjáraukalögin en inni á þeim er, eins og menn vita, heimild til að fella niður skuldir Ríkisútvarpsins upp á 625 millj. Ég vil einnig geta þess að ríkisendurskoðandi fór yfir málið með nefndarmönnum og kannski hefur hv. þingmaður ekki viljað heyra það sem hann sagði fyrir framan nefndarmenn. Hann lýsti því sérstaklega yfir að það væri afar vel staðið að allri formbreytingu á rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins og ég lýsi því enn og aftur yfir að Ríkisútvarpinu verður skilað með 15% eiginfjárhlutfalli þegar rekstrarbreytingin á sér stað. Það mun verða til þess að Ríkisútvarpið geti staðið undir þeim kröfum og staðist þær væntingar sem við gerum alla jafnan til þess.