133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur gumað af því að hún beri góðan hug til Ríkisútvarpsins. Þessi góði hugur hefur birst í því að á árunum 1996–2004 drógust rauntekjur Ríkisútvarpsins saman um 15% eða þar um bil. Þetta þýddi 15% fækkun í starfsliði stofnunarinnar. Síðan eru að koma fram upplýsingar um hvað gerst hafi síðan þá. Hér kemur fram að árið 2004 var halli á rekstri Ríkisútvarpsins 49,8 millj. kr. Árið 2005 var halli á rekstri Ríkisútvarpsins kominn upp í 196,2 millj. og á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2006 var halli á rekstri Ríkisútvarpsins 420 millj., hálfur milljarður króna. Hvað er að gerast í rekstri þessarar stofnunar? Finnst mönnum virkilega boðlegt að afgreiða þetta mál núna, frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. án þess að þessar upplýsingar séu ræddar? Það var beðið um þessar upplýsingar í desembermánuði og samkvæmt þingsköpum áttu þær að liggja fyrir þinginu 10 dögum síðar og núna fyrst eru þær að koma fram. Hér eru að koma fram grafalvarlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og ég leyfi mér að efast um að allar þessar upplýsingar hafi komið fram í menntamálanefnd þingsins vegna þess að þetta eru sumar hverjar nýjar upplýsingar sem hér koma fram og ég vek athygli á því að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir því að bæta stöðu Ríkisútvarpsins fjárhagslega til lengri tíma litið. Þvert á móti á að herða á stofnuninni þegar til lengri tíma er litið og er ég þá ekki að horfa á það sem kann að gerast á fyrstu metrum einkavæðingarinnar.