133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

afgreiðsla frumvarps um RÚV.

[13:56]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem raunar upp vegna þess að ég er að sjá þetta svar í fyrsta sinn eins og aðrir, enda var það lagt hér fram rétt fyrir stundu, og ég lýsi yfir óánægju minni með það að forseti þingsins skyldi ekki sjá til þess að þessar upplýsingar væru fram komnar áður en umræðunni um Ríkisútvarpið lyki. Ég hefði talið að forseti hefði átt að kalla eftir því frá menntamálaráðherra að þessar upplýsingar lægju hér fyrir.

Það má kannski segja að það sé bitamunur en ekki fjár á því hvort uppsafnaðar skuldir Ríkisútvarpsins eru 5,2 milljarðar samkvæmt árshlutareikningi 30. júní sl. eða hvort þær voru 4,8 milljarðar eins og þær voru í árslok síðasta árs. Það alvarlega í þessu máli, finnst mér, er að Ríkisútvarpið hefur safnað upp á þessu ári tvöfalt meiri rekstrarhalla en allt árið í fyrra. Maður hlýtur að spyrja hvað hafi verið að gerast í Ríkisútvarpinu sem safnar 420 millj. í (Forseti hringir.) rekstrarhalla á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta hefði átt að liggja fyrir, virðulegur forseti.

(Forseti (SP): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að halda sig við umræðuna um fundarstjórn forseta.)