133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:16]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þá er loksins komið að því að greiða atkvæði um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Þriðju umæðu er lokið og stjórnarandstaðan hefur gefist upp á því málþófi sem hún hóf fyrir rúmri viku.

Mikið hefur verið rætt um málefni Ríkisútvarpsins og þetta frumvarp á þessu þingi. Við höfum rætt þetta mál í þrjú ár og ég fullyrði að fá mál, ef einhver, hafa fengið jafnvandaða og mikla umfjöllun og mál Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í: Geysilega vandað mál.) Sjaldan er minnst á það af hálfu stjórnarandstæðinga að í þessu ferli öllu hefur verulega verið komið til móts við kröfur stjórnarandstöðunnar. Ég nefni sem dæmi að ákvæði upplýsingalaga eru látin gilda um Ríkisútvarpið og að slegin hefur verið skjaldborg um það að mikilvæg menningarverðmæti verði ekki seld út úr hinu nýja félagi. En önnur svokölluð sáttaboð sem fram hafa komið eru ekki nein viðleitni til sátta heldur krafa stjórnarandstöðunnar um að að við í meiri hlutanum drögum til baka öll meginmarkmið frumvarpsins. Stundum er það svo að maður fær tilboð sem maður getur ekki hafnað en þessi gylliboð eru einfaldlega ekki þess efnis. Þess vegna munum við í Sjálfstæðisflokknum greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar og ég hvet aðra hv. þingmenn til þess að gera það sama. Sérstaklega vil ég hvetja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, til að greiða þessu frumvarpi atkvæði, en eins og ég hef farið yfir áður í ræðum mínum lýsti hv. þingmaður því yfir hinn 10. nóvember 2006 í viðtali við Fréttablaðið að hann styddi það að Ríkisútvarpinu yrði breytt í opinbert hlutafélag. Ég geri ráð fyrir að varaformaður Samfylkingarinnar sýni sitt rétta andlit í þessu máli og standi með stjórnarmeirihlutanum eins og hann sagðist ætla að gera 10. nóvember sl.