133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta er ein af dapurlegri atkvæðagreiðslum þessa kjörtímabils. Það er auðvitað önugt að þurfa að standa hér eina ferðina enn og leiðrétta hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og aðra stjórnarliða sem kalla málefnalegar ræður þingmanna stjórnarandstöðunnar í þessu máli málþóf og yfirlýsingu stjórnarandstöðunnar frá í gær, um samstöðu í málefnum Ríkisútvarpsins, uppgjöf stjórnarandstöðunnar. Það gerir hæstv. menntamálaráðherra líka í fréttum. Hún klifaði á því í fréttum í allan gærdag og það er endurtekið eftir henni í fjölmiðlum í dag að stjórnarandstaðan hafi gefist upp í málinu.

Þetta lýsir afskaplega vel hversu þessi stjórnvöld eru illa haldin af því sem kallað er valdhroki og hversu gersneydd þau eru skilningi á grunnreglum lýðræðisins. Átök lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar eru lítið annað en leikur í hugum hæstv. ráðherra og hv. formanns menntamálanefndar og spurningin einungis um það hver hefur hvern undir. Hæstv. menntamálaráðherra hefur verið einörð í því að láta ekki nein rök stjórnarandstöðunnar ná til sín í þessu máli og ráðherranum hefur aldrei tekist að svara spurningum um einstaka þætti málsins öðruvísi en í illa orðuðum frösum og innantómum slagorðum. Helst hefur litið út fyrir að um léttvægan kappleik væri að ræða sem spurning væri um að vinna eða tapa.

Hæstv. forseti. Mál það sem hér um ræðir er alvarlegt ekki síst fyrir þær sakir að hér eru réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins fyrir borð borin og athugasemdir þeirra hunsaðar. Ásetningur stjórnvalda hefur verið að koma útvarpinu í hendurnar á einráðum útvarpsstjóra, með bakland hjá ríkjandi stjórnvöldum, sem hefur gefið út þá yfirlýsingu að launabil á milli starfsfólks muni aukast þegar kjarasamningum starfsmanna verður breytt úr miðlægum samningum á félagslegum grunni í það sem hann kallar frjálsa samninga, sem festa í sessi launaleynd á þeim nótum sem útvarpsstjóri hefur nú þegar innleitt í stofnunina svo sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Kann hæstv. menntamálaráðherra ekki grundvallaratriðin í áhrifum slíkra samninga á launamun kynjanna og hvar er hæstv. félagsmálaráðherra?

Hæstv. forseti. Núverandi stjórnvöld hafa það auðvitað á stefnuskrá sinni að selja Ríkisútvarpið. Þessi einkavæðing er skref í þá átt. Komandi kærur og klögumál, vegna þess að Ríkisútvarpið sem yrði ohf. yrði farið að berjast við samkeppnisaðila sína á markaði á öðrum forsendum heldur en nú eru, kalla á kærur og klögumál sem veikja Ríkisútvarpið og eftirleikurinn á eftir að verða einfaldur fyrir ríkisstjórnina, ef hún heldur sessi sínum, að selja útvarpið. Það er mergurinn málsins. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum (Forseti hringir.) á móti þessu frumvarpi og það kemur fram í þessari atkvæðagreiðslu.