133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Frumvarp þetta um einkavæðingu Ríkisútvarpsins er til marks um þráhyggju ríkisstjórnarinnar sem sést engan veginn fyrir og fórnar Ríkisútvarpinu, rýfur friðarskildi um málefni þess, og kastar því út í ólgusjó illdeilna og málaferla. Öllum er orðið ljóst að þetta eru mistök, nema e.t.v. ráðherranum og útvarpsstjóra, en þrjóskan ein stendur eftir, það að hafa sitt fram jafnvel þó að til ófarnaðar verði. En átakanlegast er þó þetta mál fyrir Framsóknarflokkinn. Þetta mál er lýsandi. Það er afhjúpandi fyrir Framsóknarflokkinn, fyrir svik Framsóknarflokksins við eigin landsfundarsamþykktir, fyrir svik Framsóknarflokksins við kjósendur sína, fyrir húsmennsku Framsóknar og flórmokstur í daunillu fjósi íhaldsins.