133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:30]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Framganga stjórnarandstöðunnar í þessu máli minnir dálítið á sjóbirting sem hefur þá náttúru að ráðast á bráð sína með stærilæti og látum og ólmast síðan með sporðaköstum og meiri látum og vita ekki nákvæmlega hvert hann ætlar. En skyndilega springur hann á limminu og setur kviðinn upp.

Þannig finnst mér stjórnarandstaðan koma með þessa tillögu sína … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) nálgast þessa atkvæðagreiðslu með kviðinn upp. (Gripið fram í.) Frú forseti, (Forseti hringir.) þessi virðulega stjórnarandstaða …

(Forseti (SP): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumanni frið til þess að tala.)

Þakka þér frú forseti. Þessi sama stjórnarandstaða kemur hér með kviðinn upp og ætlar ekki einu sinni að taka þátt í atkvæðagreiðslu sem m.a. bannar að Ríkisútvarpið sé sett á sölu. Háttvirt stjórnarandstaða ætlar ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslu um að styrkja Ríkisútvarpið til framtíðar.

Hv. stjórnarandstaða kemur með tillögu um að vísa málinu frá (Forseti hringir.) með kviðinn upp. Við skulum senda þessa tillögu, frú forseti, til föðurhúsanna. (Forseti hringir.) (ÖJ: Framsóknarflokkurinn á að sjá sóma sinn í því að þegja.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti verður að segja að það fer að stórsjá á þessari bjöllu ef hv. þingmenn fara ekki að halda ró sinni þótt það séu kosningar í vor. Það verður að hafa gott skipulag á fundum. Forseti biður hv. þingmenn um að virða það.)