133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:44]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil við þessa atkvæðagreiðslu árétta langvarandi og óbilandi stuðning Framsóknarflokksins við Ríkisútvarpið (ÖS: Og Sjálfstæðisflokkinn.) sem almannaútvarps í þjóðareign og stuðning okkar við mikilsvert hlutverk Ríkisútvarpsins fyrir menningararfleifð þjóðarinnar og fyrir öryggi landsmanna.

Á umliðnum árum hefur á flokksþingi Framsóknarflokksins verið lögð rík áhersla á sjálfstæði Ríkisútvarpsins, á trygga rekstrarafkomu Ríkisútvarpsins og að við endurskoðun laganna verði tekið mið af breyttu fjölmiðlaumhverfi. Áskilnaður um ákveðið rekstrarform vék í ályktun flokksþingsins fyrir tveimur árum fyrir megináherslunni á þjóðareign Ríkisútvarpsins og eignarhald þjóðarinnar er tryggt með beinu ákvæði þar um í frumvarpinu. Á meðan Framsóknarflokkurinn fær um það ráðið.

Loks vil ég frú forseti segja um rekstrarformið opinbert hlutafélag að það hefur sér til ágætis, auk annars, að tryggja jafnan hlut karla og kvenna í stjórn félagsins. Ég segi já, frú forseti.