133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég segi nei við þessu frumvarpi og ég vil vekja athygli á því að við erum að ræða um almannaútvarp. Það segir auðvitað sína sögu um stöðu málsins að þetta er afgreitt í ósætti. Hvers vegna erum við að afgreiða í ósætti þá stofnun sem á að þjóna almenningi? Það er vegna þrákelkni hæstv. menntamálaráðherra og ekki út af neinu öðru. Hún hefur orðið afturreka með hvert málið á fætur öðru þannig að hér er um eitthvert persónulegt stolt hæstv. menntamálaráðherra að ræða og Framsóknarflokkurinn fylgir á eftir.

Ég spyr: Hvar er samvinnuhugsjón framsóknarmanna, hvar birtist hún? Birtist hún í 16 þúsund kr. nefskatti sem auðmenn landsins eru undanþegnir? Ég spyr, og það eru fleiri sem spyrja þessarar spurningar og undra sig á þeirri vegferð sem Framsóknarflokkurinn er kominn í.

Það þýðir ekkert fyrir varaformann Framsóknarflokksins að vera með ábúðarfullar ræður um að (Forseti hringir.) ekki standi til að selja Ríkisútvarpið vegna (Forseti hringir.) þess að sagan segir okkur allt aðra sögu hvað það varðar þegar ríkisfyrirtæki eru hlutafélagavædd.

(Forseti (SP): Hvað segir hv. þingmaður?)

Ég segi nei og ég sagði það í upphafi ræðu minnar.