133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Við Íslendingar viljum eiga ríkisútvarp og metnaður ríkisstjórnarinnar stendur til að starfrækja hér öflugt ríkisútvarp, ríkisútvarp sem hefur skýrt og afmarkað hlutverk í almannaþágu. Ríkisútvarpið verður að geta starfað í mjög hröðu og síbreytilegu umhverfi fjölmiðlanna. Við þurfum að veita Ríkisútvarpinu svigrúm til að vera í takti við nútímann og veita því jafnframt tækifæri til þess að takast á við framtíðina. Að mínu mati er tækifæri til að efla enn frekar t.d. innlenda dagskrárgerð, efla enn frekar menningar- og almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins. Þess vegna er mikilvægt að Ríkisútvarpið fái svigrúm, svigrúm sem er í þessu frumvarpi sem við erum að greiða atkvæði um, til þess að takast á við mjög ríkar menningarlegar kröfur sem við gerum til Ríkisútvarpsins.

Ég er sannfærð um, frú forseti, að þetta frumvarp er lyftistöng fyrir ríkisútvarp í almannaþágu og því segi ég já.