133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[15:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hefur verið fylgifrumvarp með Ríkisútvarpsfrumvarpi hæstv. menntamálaráðherra en hefur sannarlega ævinlega fallið í skuggann af hinu fyrra. Ég tel þetta mál illa ígrundað og ekkert rætt í raun og veru. Við vitum að athugasemdir hafa verið gerðar við þetta frumvarp sem ekki hefur verið svarað. Við höfum bent á það, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að Sinfóníuhljómsveitin þarf á því að halda að vel sé staðið við bakið á henni og það sé tryggt að framtíð hennar sé örugg. Ef fram heldur sem horfir með ætlunarverk ríkisstjórnarinnar, og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega sem Framsóknarflokkurinn reyndar styður ævinlega í þessu máli, tel ég hlutverk Sinfóníuhljómsveitarinnar langt í frá tryggt. Ég tel glapræði að samþykkja þetta frumvarp hér í ljósi þess sem mér sýnist vera ljóst varðandi málefni Ríkisútvarpsins. Sinfóníuhljómsveitin getur alveg átt það á hættu að þetta veiki stöðu hennar. Það væri mjög miður.