133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:25]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda í þessari umræðu fyrir að taka þetta mál til umfjöllunar. Það hefur nú þegar komið fram í umræðunni að það mál sem sérstaklega hefur orðið tilefni, þótt mörg tilefni hafi verið tiltekin, það er Betsson sem varð tilefni til þessarar umræðu, er til rannsóknar hjá lögreglu og hefur verið síðustu 10 mánuði og er þannig í réttum farvegi eftir að dómsmálaráðherra sendi það til lögreglu til frekari skoðunar.

Hér hafa komið fram hugmyndir um að afleggja fjárhættuspil í þeirri mynd sem við þekkjum þau í formi spilakassanna. Menn geta í sjálfu sér komið fram með slíkar hugmyndir en eins og sú umræða bar með sér verður um leið að finna leiðir til að tryggja nýtt fjármagn í stað þess sem þeir aðilar sem sækja fjáröflun til spilakassanna verða af. Ég held að sú umræða verði líka að vera tekin í samhengi við það hvort við viljum setja þessu einhverjar nýjar reglur, koma þessu í eitthvert nýtt form, út úr verslunarmiðstöðvunum og eftir atvikum láta fjárhættuspilin fara fram með öðrum hætti en við þekkjum þau í dag. Ég er alveg tilbúinn til að taka þátt í þeirri umræðu en sé ekki fyrir mér að við eigum að haga okkur með mjög ólíkum hætti þegar borið er saman við löndin í kringum okkur.

Varðandi netið, þá er það alveg sérstakt vandamál. Ég held að menn verði að gæta sín á því að einblína ekki um of á eigendur Betssons sem hafa verið nefndir hér oftar en einu sinni því að lögaðilinn getur verið erlendur og netið er bara eins og útvarp sem stillt er svo hátt í öðru landi að hljóðbylgjurnar berast hingað og við getum talað um það hér að við þurfum að gera eitthvað í því að stöðva hljóðbylgjurnar en þær flæða bara yfir okkur engu að síður. Alþjóðleg samvinna á þessum vettvangi er líklegust til að skila árangri.