133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:27]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í nýlegri færslu inni á heimasíðunni spilavandi.is segir kona: „Ég spilaði mig næstum til bana.“ Hún spilaði á 15 árum frá sér 40 millj. kr., spilaði frá sér aleigunni, fjölskyldunni, fjármunum og frama í starfi. Við vitum öll að spilafíkn er mjög vaxandi og alvarlegur vandi í samfélaginu sem hefur vaðið mjög uppi á síðustu missirum og er að verða að nokkurs konar faraldri í sumum öngum samfélagsins. Við höfum ekki brugðist nægjanlega við þessum vanda, ekki skilgreint hann eða tekið á honum. Það þarf að reisa miklu frekari skorður við fjárhættustarfsemi af hvaða tagi sem hún er og það er vafasamt í besta falli og siðlaust í versta falli að fjármagna þá þætti samfélagsins sem við gerum með spilakössunum svokölluðu, hvaða nafni sem þeir kallast hverju sinni. Það er afleitt fyrirkomulag og það ber að endurskoða það og finna þeim stofnunum og samtökum sem hér hafa verið nefnd aðra tekjustofna, að sjálfsögðu.

Spilafíknin er vandi sem herjar á þúsundir einstaklinga og fjölmargar fjölskyldur í landinu. Við þurfum að viðurkenna vandamálið og bregðast við því og að sjálfsögðu að fylgja eftir landslögum sem kveða á um bann við auglýsingum af því tagi sem hér um ræðir á netspilavítum og öðrum fjárhættuspilum í landinu. Að sjálfsögðu eigum við að fylgja því eftir en um leið tek ég undir að við þurfum að taka til endurskoðunar allt umhverfi fjárhættuspila í landinu og reisa því þær skorður sem þarf að reisa til að taka á vandanum með sómasamlegum hætti. Við eigum að kalla eftir nýjum úrræðum og hafna þeim lausatökum sem hafa verið á þessum málum. Það er kominn tími til að taka málið alvarlega.