133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:34]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. upphafsmaður umræðunnar vil ég þakka fyrir umræðurnar. Ég vil ekki taka undir það að menn hafi ekki fjallað um þessi mál á þingi því hér voru sett lög árið 2005 eftir ítarlegar umræður um ný happdrættislög og höfðu þá ekki verið sett happdrættislög, held ég, síðan 1928 eða 1923. Það hefur því verið fjallað um þessi mál á þingi á þessu kjörtímabili og farið yfir þetta og settar þær reglur sem við styðjumst síðan við núna þegar við teljum að sporna eigi við þessari starfsemi á netinu.

Ég vil einnig segja að þegar menn tala um að fyrirtæki, félög eða stofnanir fái tekjur af þessari starfsemi og sporna eigi við því að þau samtök eða stofnanir fái það fé og eigi að fá fé eftir öðrum leiðum, þá tel ég að bak við þær ákvarðanir sem forverar okkar hafa tekið um þetta fjárstreymi, búi mjög mikið raunsæi. Búi það raunsæi að það sé betra að þessi starfsemi verði í landinu og sé í landinu. Betra sé að það renni til samtaka, stofnana og aðila sem sinna þeim málum sem þeir eru að sinna og fá þetta fé, en að það renni til einhverra annarra. Það er slíkt raunsæi sem þar býr að baki.

Menn standa núna frammi fyrir því og Norðmenn eru í málaferlum fyrir dómstóli EFTA um það hvort breska Ladbrokes-fyrirtækið fái heimildir til starfrækslu í Noregi. Og breska Ladbrokes-fyrirtækið er ekkert góðgerðarfyrirtæki. Það er einkafyrirtæki, gróðafyrirtæki og það mun ekki verja fjármunum sínum til háskólastarfsemi eða Rauða krossins eða SÁÁ eða annarra slíkra aðila.

Ég tel því að með þeirri stefnu sem við höfum haft og er í löggjöf okkar frá 2005 séum við ekki að gera neinum óleik, heldur í raun og veru að sýna mikið raunsæi.