133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[15:37]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Frumvarpið er unnið í umhverfisráðuneytinu í nánu samráði við sérstaka ráðgjafarnefnd sem þáverandi umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, skipaði þann 30. nóvember 2005 til að vinna með ráðuneytinu að undirbúningi málsins.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra sveitarfélaga á því svæði sem rætt hefur verið um að Vatnajökulsþjóðgarður nái til, auk fulltrúa umhverfisverndarsamtaka og formanns skipuðum af umhverfisráðherra.

Hugmyndir um friðlýsingu Vatnajökuls og lands umhverfis jökulinn hafa verið til umræðu og athugunar í nokkur ár. Á Alþingi hófst umræðan árið 1998 þegar Hjörleifur Guttormsson lagði fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um fjóra þjóðgarða á miðhálendi landsins þar sem stærstu jöklar landsins voru megináherslan.

Í tillögunni var m.a. gert ráð fyrir Vatnajökulsþjóðgarði sem næði yfir jökulinn og umfangsmikil svæði allt í kringum hann eða alls um 15.000 ferkílómetra. Í framhaldi af því samþykkti Alþingi vorið 1999 sérstaka þingsályktun um Vatnajökulsþjóðgarð þar sem Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.

Síðan þá hafa nokkrar nefndir unnið að undirbúningi málsins. Má þar m.a. nefna nefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka sem þá áttu sæti á Alþingi og fjallaði um svæðið norðan jökulsins. Sú nefnd var einhuga í málinu og lagði í maí 2004 fram tillögur um umfang verndarsvæðisins, verndarstig einstakra svæða og stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins.

Nefndin hafði við mótun tillagna sinna náið samráð við viðkomandi sveitarfélög, landeigendur og landnotendur, þar með talda ferðaþjónustuaðila og umhverfisverndarsamtök og vann ítarlega greinargerð um málið.

Segja má að við undirbúning málsins síðan, m.a. við gerð þessa frumvarps, hafi í meginatriðum verið byggt á tillögum þingmannanefndarinnar frá árinu 2004.

Í frumvarpinu er lagður rammi fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, sérstaklega hvað varðar stjórnfyrirkomulag hans og rekstur. Eins og með þjóðgarða samkvæmt náttúruverndarlögum er gert ráð fyrir að friðlýsing þjóðgarðsins taki gildi við setningu reglugerðar um hann. Þar verði dregin mörk þjóðgarðsins og settar nákvæmar reglur fyrir einstök svæði hans.

Lagt er til að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs taki mið af alþjóðlegum viðmiðum um þjóðgarða og friðlýst svæði og að verndarstig einstakra svæða þjóðgarðsins miðist við hefðbundnar nytjar, svo sem beit og veiðar á fuglum, dýrum og vatnafiskum. Hún gæti farið fram með viðlíka hætti innan þjóðgarðsins og verið hefur. Samkvæmt frumvarpinu getur land í Vatnajökulsþjóðgarði verið ýmist í eigu ríkisins eða annarra aðila náist um það samkomulag.

Þegar hafa farið fram frumviðræður milli ráðuneytisins og viðkomandi landeigenda á þeim svæðum sem áhugi stendur til að verði hluti þjóðgarðsins og er gert ráð fyrir að halda þeim viðræðum áfram jafnskjótt og frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð er orðið að lögum

Ráðgjafarnefndin gerði tillögur að fyrstu mörkum þjóðgarðsins og er gerð grein fyrir þeim í skýrslu nefndarinnar sem fylgir frumvarpinu. Endanleg mörk ráðast hins vegar af samningum við landeigendur þess hluta landsins sem er í einkaeign. Slíkt samkomulag þarf að liggja fyrir við stofnun þjóðgarðsins sem vænst er að geti orðið seinni hluta árs 2007 eða á fyrri hluta ársins 2008.

Heimamenn hafa í öllu undirbúningsferli að stofnun þjóðgarðsins lagt á það áherslu að aðkoma þeirra að stjórn og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs verði meiri en í núverandi þjóðgörðum. Í frumvarpinu er leitast við að koma til móts við þessar óskir. Lagt er til að Vatnajökulsþjóðgarður verði ríkisstofnun sem lúti sérstakri sjö manna stjórn skipaðri af umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir að fjórir af sjö stjórnarmönnum, þ.e. formenn svokallaðra svæðisráða þjóðgarðsins, komi úr röðum heimamanna. Einn fulltrúi umhverfisverndarsamtaka sitji í stjórn og formaður og varaformaður skipaður af umhverfisráðherra án tilnefningar.

Lagt er til að þjóðgarðinum verði skipt í fjögur rekstrarsvæði undir stjórn þjóðgarðsvarða sem ábyrgð beri á daglegum rekstri svæðanna. Á hverju svæði verði enn fremur skipað sérstakt svæðisráð skipað fulltrúum sveitarfélaga, ferðamálasamtaka og umhverfissamtaka. Verkefni svæðisráða verði m.a. að gera tillögu að verndaráætlun og rekstraráætlun fyrir viðkomandi svæði og að vera þjóðgarðsverði almennt til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á svæðinu auk þess sem formenn þeirra eiga sæti í stjórn þjóðgarðsins eins og áður segir.

Vatnajökulsþjóðgarður verður stærsti þjóðgarður í Evrópu og mun hafa mikla sérstöðu í náttúrufarslegu tilliti í heiminum. Ítarleg samantekt Náttúrufræðistofnunar Íslands á verndargildi svæðisins leiðir í ljós óvenjulegan fjölbreytileika og náttúrufar sem á óvíða sinn líka, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig á heimsvísu.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur telur svæðið einstakt í heiminum í jarðfræði og jarðsögulegu tilliti, þar sem samspil elds og ísa hafa ráðið landmótun að miklu leyti. Þessi sérstaða þjóðgarðsins mun í framtíðinni draga að aukinn fjölda ferðamanna, bæði innlendra og erlendra. Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök hafa lýst þessum hugmyndum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem afar metnaðarfullum og líklegum til að vekja heimsathygli.

Mat Rögnvaldar Guðmundssonar ferðamálafræðings á áhrif Vatnajökulsþjóðgarðs á íslenska ferðaþjónustu er að þjóðgarðurinn muni á árinu 2012, verði farið að tillögum ráðgjafarnefndarinnar um uppbyggingu þjóðgarðsins, hafa aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 3–4 milljarða kr. á ári. Þar af telur hann að 1,5 milljarðar kr. muni koma fram árlega sem auknar atvinnu- og þjónustutekjur á nærsvæði þjóðgarðsins.

Þannig má gróflega ætla að þjóðgarðurinn hafi skapað nálega 400 til 500 ný störf í landinu þegar á árinu 2012. Þetta sýnir mjög glögglega þvert ofan í það sem oft er haldið fram að náttúruvernd getur lagt grunn að nýjum tekjum af landinu okkar. Þannig má segja að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs muni ekki aðeins leggja grunn að vernd einstakrar náttúru heldur jafnframt styrkja verulega atvinnulíf og byggð í nágrenni þjóðgarðsins er fram líða stundir.

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er metnaðarfullt verkefni, hvort sem litið er til náttúruverndar eða markmiða um framtíðarlandnýtingu á því svæði sem ráðgjafarnefndin telur að uppfylli kröfur um verndargildi þjóðgarðs. Fullyrða má að það sé langstærsta verkefni sem íslensk stjórnvöld hafa ráðist í í náttúruvernd fyrr og síðar. Markmið stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs mun hins vegar ekki nást nema að tryggð sé sú uppbygging þjónustunets þjóðgarðsins sem ráðgjafarnefnd um Vatnajökulsþjóðgarð hefur lagt til.

Gerir nefndin tillögu að tímasettri framkvæmdaáætlun fyrir einstaka þætti þjónustunetsins. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu þjónustunets þjóðgarðsins er um 1.150 millj. kr. og telur nefndin raunhæft að sú uppbygging eigi sér stað á fyrstu fimm árunum eftir stofnun þjóðgarðsins. Þannig gæti þjónustunet þjóðgarðsins verið fullgert á árinu 2012 gangi áætlanir um stofnun þjóðgarðsins eftir.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarps um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og geri ráð fyrir að að lokinni 1. umr. verði frumvarpinu vísað til hv. umhverfisnefndar.