133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:06]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér fremur óviðfelldið andsvar vegna þess að ég fullyrði að ekkert í mínum málflutningi gefi tilefni til að bera mér á brýn að ég vantreysti fólki sem býr annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Sjálf er ég fædd og upp vaxin og stofnaði mitt fyrsta heimili sem ung kona í dreifbýlinu og ég hef mjög sterkar taugar til þess. Ég treysti þar hverjum sem er. En þetta eru líka viðbrögð sem komu á sínum tíma hér þegar umræða var um breytingu á sveitarfélögum og minn flokkur hafði skoðun á því að það ætti að horfa öðruvísi á miðhálendið sem slíkt en sveitarfélögin almennt. Þetta eru hugmyndir um að oft sé heppilegra að stjórnir sameiginlegra svæða séu sameiginlegar. Það sem ég vakti athygli á er að það eru fjögur svæðisráð og þar eru 3:1:1, og meiri hluti heimamanna í öllum svæðisráðunum og það finnst mér að geti verið mjög gott mál miðað við þau verkefni sem þarf að leysa. Síðan verða formenn þessara svæðisráða með í yfirstjórninni og svo er það umhverfisráðherra sem skipar tvo og einn kemur frá umhverfissamtökum. Þarna finnst mér að eigi að skoða hvort það sé bara yfirleitt það rétta að um svona svæði eigi öll þjóðarheildin að sameinast eða hvort það eigi endilega að vera þannig að heimamennirnir hafi meiri hluta í yfirstjórninni. Ég er ekki einu sinni að taka afstöðu til þess núna en þetta er nokkuð sem við höfum staldrað við.