133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:44]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að meginmáli skiptir að til veljist fólk sem hefur heilbrigða, almenna skynsemi í farteskinu. Ég ætlaði einmitt að taka fram að það á við, held ég, um allflesta þingmenn og væru vel að því komnir að vera í stjórn þjóðgarðsins. Enda hefur það sýnt sig að í stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum, þar sem hv. þingmaður situr nú og hefur staðið sig afskaplega vel og þeir þrír þingmenn sem þar sitja, að ég tel það hafa verið góðan kost að ráða þannig, að þingmenn sætu þar í stjórn. Þess vegna vildi ég nefna að ég tel að sú góða reynsla sem þar hefur fengist hafi m.a. verið það veganesti sem við höfðum þegar við lögðum til, þ.e. ég, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Magnús Stefánsson, að í yfirstjórninni sætu að minnsta kosti fjórir þingmenn. Það var m.a. hin góða reynsla sem hafði gefist af stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum sem við höfðum þar fyrir okkur. Fyrir utan þá almennu vitneskju að á Alþingi situr yfir höfuð mjög skynsamt fólk.