133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[17:27]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ekki er annað hægt en að fagna því ef stofna á þjóðgarð um Vatnajökul og það svæði sem þar um ræðir þó svo maður sé kannski ekki alveg sáttur við allt sem í þingmálinu stendur, en vissulega ber að fagna því þegar vernda á svo stórt svæði eins og hér um ræðir og alveg norður úr að Axarfirði. Félagar mínir úr Samfylkingunni, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og hv. þm. Mörður Árnason, hafa farið yfir allmarga þætti sem við teljum að þurfi kannski að fara betur yfir í nefndinni og þau hafa varpað fram ýmsum spurningum sem ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra muni svara að lokinni umræðu. Í ljósi þess að við höfum farið saman yfir þetta, þingmennirnir í Samfylkingunni sem sitjum í umhverfisnefnd, er ástæðulaust fyrir mig að endurtaka þau atriði sem hafa komið fram í ræðum félaga minna fyrr í umræðunni. Þó vil ég nefna að ég tek undir með þeim og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í andsvari áðan að við höfum ákveðnar efasemdir um stjórnsýsluþáttinn. Ýmsar athugasemdir hafa komið fram og spurningar sem snúa að honum, og það er þáttur sem við verðum að skoða mjög vel í nefndinni.

Það er auðvitað ekki viðunandi að stór hluti landsmanna, ég tel að það séu um 80%, eigi ekki aðkomu að því að ráða neinu um þennan garð. Það er alls ekki viðunandi og því þurfum við að breyta eða skoða mjög alvarlega. Ég hef einnig efasemdir um þá leið sem farin er í frumvarpinu. Ég tel að þjóðgarður ætti að heyra undir náttúruverndarlög og hefði gjarnan viljað heyra hjá hæstv. ráðherra á eftir þegar hún heldur ræðu sína og svarar þeim fyrirspurnum sem komið hafa fram, hvort búið sé að tala við landeigendur. Ég veit að í öðrum löndum þar sem menn hafa verið að stofna þjóðgarða hefur það tekið langan tíma, áður en þjóðgarður er stofnaður, að ræða við landeigendur og ganga frá þeim þáttum sem að þeim snúa. Það tekur mörg ár og ég velti fyrir mér: Hversu langt er sú vinna komin? Hve mikil vinna fór fram í ráðuneytinu? Fram kom hjá hæstv. ráðherra að frumvarpið hefði verið unnið þar. Hversu langan tíma og hversu mikil vinna fór fram í ráðuneytinu? Ég veit að mikil vinna hefur farið fram á vegum nefnda sem hafa fjallað um þetta. Fyrir liggja þingmál um þjóðgarðinn frá fyrri tíð en vegna þeirra orða hæstv. ráðherra að þingmálið hafi verið unnið í ráðuneytinu væri fróðlegt að heyra hversu mikil vinna fór fram í ráðuneytinu áður en málið kom inn í þingið.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að endurtaka það sem félagar mínir hafa sagt. Ég mun náttúrlega koma að málinu í nefndinni. Við höfum skoðað það mjög gaumgæfilega, samfylkingarþingmennirnir, og munum örugglega koma með fleiri spurningar og athugasemdir þegar málið kemur til umfjöllunar í nefnd. En þetta eru í rauninni þau atriði sem ég hefði gjarnan viljað heyra svör ráðherra við auk þeirra spurninga sem félagar mínir hafa varpað fram á undan mér í umræðunni.

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi þetta ekki miklu lengra en furða mig á hvað skipulagið á stjórninni virðist vera ruglingslegt og stjórnsýsluþátturinn er atriði sem við þurfum að skoða nánar. Athugasemdir okkar og spurningar hafa komið fram í ræðum samfylkingarþingmanna á undan mér.