133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:14]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð, afargott mál. Það varð dálítið merkileg uppákoma í framhaldi af ágætri ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi eða öllu heldur báðir hv. þingmenn skuli rísa upp í andsvör út af algjörum smáatriðum og hlutum sem ég reikna ekki með að séu mjög mikilvægir í þessu máli. Kann þó að vera af því að það nálgast kosningar að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu með eitthvert samviskubit vegna þess að það eru auðvitað mörg mál sem Sjálfstæðisflokkurinn er með í vörn. Ég nefni þar t.d. aukin framlög til Háskólans á Akureyri og Vaðlaheiðargöng, mál sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa því miður ekki komið áfram í þinginu og eiga þar auðvitað við sína ríkisstjórn að sakast en ekki við þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Ég ætla hins vegar ekki að fara nánar út í þessi mál heldur ætla ég fyrst og fremst að lýsa yfir ánægju minni með margt af því sem kemur fram í þessu frumvarpi til laga um Vatnajökulsþjóðgarð og hv. þingmenn Steingrímur Sigfússon og Kolbrún Halldórsdóttir hafa farið vel yfir sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í því máli. Það er vel við hæfi að nú situr í forsetastól hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra sem ég held að hafi unnið mjög gott verk í því að stofna sérstaka ráðgjafarnefnd um Vatnajökulsþjóðgarð. Nefndin hefur unnið skýrslu fyrir umhverfisráðuneytið sem er afar ítarleg og góð og í sumum tilfellum hefði jafnvel verið betra að fara meira eftir þeirri skýrslu við samningu lagatextans, en í ráðgjafarnefndinni voru einmitt mjög margir heimamenn. Það voru fulltrúar Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps, Ásahrepps frá Rangárþingi ytra, frá Skútustaðahreppi, Þingeyjarsveit, Fljótsdalshreppi og Fljótsdalshéraði og einnig frá Skaftárhreppi og sveitarfélaginu Hornafirði. Og sérstaklega ánægjulegt var, og það á ekki alltaf við um svona nefndir, að í nefndinni sátu fulltrúar frjálsra félagasamtaka, þ.e. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, formaður Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi og varamaður hans var Ulla R. Pedersen. Þetta finnst mér allt vera til mikillar fyrirmyndar.

Til að vera áfram á jákvæðu nótunum vil ég lýsa yfir sérstakri ánægju minni með yfirlýsingu hv. þm. Halldórs Blöndals þegar hann lýsti því yfir í ræðustól að það kæmi ekki til greina að flytja Kreppu úr farvegi sínum og til Austurlands. Þetta þykja mér mikil tíðindi og góð og gott hefði verið að hafa þvílíkan stuðningsmann þegar hin afleita Kárahnjúkavirkjun var ákveðin á hinu háa Alþingi. En ég vil sem sagt leggja áherslu á að það væri til mikils sóma ef þetta frumvarp yrði að lögum á yfirstandandi þingi þó að auðvitað þurfi að fara vel yfir málið í þingnefnd vegna þess að það er kannski eitt og annað sem þarf að skoða betur.

Í tilefni aftur ummæla hv. þm. Halldórs Blöndals um stofnun Vilhjálms Stefánssonar t.d. þá tek ég undir hvert einasta orð þar. Ég held að það sé afar mikilvægt að slíkar stofnanir séu sjálfstæðar og það sem helst háir þeim er að þær fá ekki nógu mikið fjármagn. En eins og ég kom inn á áðan þá er auðvitað ekki við þingmenn stjórnarandstöðunnar í þeim atriðum að sakast en ég er einlægur talsmaður þess að sem flestar stofnanir úti á landi séu sjálfstæðar og fái nægt fjármagn.