133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:24]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég var áðan að tala um að það væri nauðsynlegt að gera ýmsar stofnanir á Akureyri sjálfstæðar og óháðar stofnunum í Reykjavík og var að svara því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um, en hún talaði um þær sterku æðar sem lægju milli Reykjavíkur og Akureyrar og fannst að næringin yrði að koma að sunnan, þá erum við í rauninni ekki að tala um einhverjar eina eða tvær ríkisstjórnir heldur snýst málið um að ráðamenn stofnana, forstjórar mikilla stofnana sem teygja anga sína víða um land hafa tilhneigingu til að skera frekar niður fjær höfuðstað stofnunarinnar en í hjarta stofnunarinnar sem auðvitað veldur því, og við getum litið á hvaða stofnun sem er, að verkefnin færast inn á miðjuna. Þetta er skýringin á því hversu ör vöxtur opinberrar þjónustu er í Reykjavík.

En á hinn bóginn þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talar um það að við séum of stofnanavænir, ég fór að hugsa um þetta áðan af því að það kemur inn á hið sama. Úti á landi hafa ýmsir vísindamenn og fræðimenn verið að reyna að setja upp litlar stofur, veikburða stofur í raun og veru, af litlum efnum, með miklum vilja og miklum dugnaði til þess að færa þjónustuna heim í hérað og til þess að færa menntað fólk þangað … (Gripið fram í.) ja, einkaframtakið, Vinstri grænir hafa stutt einkaframtakið þarna sem er mjög gott og ég vildi gjarnan að Vinstri grænir gengju harðar og betur fram í því. Þá ættum við meiri samleið en við höfum átt.