133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:27]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt fyrir umræðuna og hversu mikil og málefnaleg hún var, a.m.k. sá hluti hennar sem sneri að hinu eiginlega frumvarpi um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það er kannski rétt að taka fram í upphafi — vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram og þess að sumir þingmenn, eins og ég gerði í framsöguræðu minni fóru allt aftur til 1998 og nefndu þar upphafsmanninn að þjóðgarðinum ef svo má kalla, Hjörleif Guttormsson — að Vatnajökulsþjóðgarður er ekki og verður aldrei eins manns verk. Hann verður fyrst og fremst afrakstur víðtæks samráðs og samvinnu, þverpólitískrar og í góðri sátt við heimamenn, sveitarstjórnarmenn og landeigendur.

Ég vil með þessu svara þeirri áherslu sem Steingrímur J. Sigfússon, einn þeirra þingmanna sem sátu í svokallaðri þingmannanefnd og skilaði áliti sínu, lagði á alúðina sem við eigum að leggja við sáttina í þessu máli. Þá má eiginlega segja að við séum komin inn á það sem helst hefur verið vottur af ágreiningi um í þessum sal og þó ekki. En það kemur vel á vondan, framsóknarmanninn, að leita málamiðlana í því.

Sveitarstjórnarmenn og jafnframt ráðgjafarnefndin lögðu mesta áherslu á að aðkoma heimamanna, aðkoma sveitarstjórnarmanna á svæðum sem land eiga að þjóðgarðinum, væri meiri en hefði tíðkast að öðrum þjóðgörðum. Þau vildu að aðkoma þeirra að stjórn og rekstri þjóðgarðsins yrði meiri en hefur tíðkast með aðra þjóðgarða. Það er í raun útgangspunkturinn. Í ljósi þess sem ég sagði í upphafi, um hversu mikilvægt væri að sátt og samvinna ríkti um þennan stóra þjóðgarð, þetta stóra verkefni, má segja að þetta hafi orðið niðurstaða ráðgjafarnefndarinnar, að stjórnskipulag þjóðgarðsins yrði með þeim hætti sem ég gerði grein fyrir. Annars vegar með svæðisráðunum og hins vegar með því að formenn svæðisráðanna sætu í stjórn þjóðgarðsins ásamt fulltrúum umhverfisverndarsamtaka og fulltrúum skipuðum af ráðherra.

Þegar ég fer í huganum yfir umræðuna sem farið hefur fram í dag þá snýst hún fyrst og fremst um þetta. Ég geri ráð fyrir að inni í umhverfisnefnd verði ekki síst fjallað um á þennan hátt. En svona liggur í því og það er eiginlega forsendan fyrir því að við erum þó komin þetta langt, ef svo má segja eftir átta ára meðgöngu, með þetta mál. Það náðist sátt um hvernig að þessu yrði staðið. Þetta er heilmikið byggðamál fyrir sveitarfélög sem land eiga að þjóðgarðinum.

Vegna þess stjórnskipulags sem frumvarpið gengur út frá geri ég geri ráð fyrir að um það verði fjallað í umhverfisnefnd. Menn hafa bent á hagsmuni þeirra sem ekki eiga land að þjóðgarðinum og á hagsmuni fólks sem býr í Reykjavík, suður og norður, og hinum kjördæmunum sem ekki eiga land að þjóðgarðinum. Ég vil taka fram að útgangspunkturinn í allri þessari vinnu var jafnframt að þjóðgarðurinn með jökulinn sem kjarna og áhrifasvæðin yrðu skoðuð sem ein heild og einn þjóðgarður sem lyti einni stjórn. Þarna er eiginlega farið bil beggja, annars vegar með svæðisráðum sem eru skipuð heimamönnum og hins vegar með landsdekkandi stjórn þjóðgarðsins sem er skipuð formönnum svæðisráðanna auk annarra sem að henni koma.

Vatnajökull og nágrenni hans er perla sem þjóðin á sameiginlega. Það er auðvitað grundvallaratriði að tryggja öllum jafnan aðgang að svæðinu, hvort sem við erum að tala um göngufólk, jeppafólk eða vélsleðamenn, að allir geti notið þess sem svæðið hefur upp á að bjóða og allir geti notið frjálsræðisins og víðáttunnar á hálendinu innan ákveðinna marka svo ekki gangi á auðlindina.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom lítillega inn á akstur á snjó. Mig langar að benda hv. þingmanni á að ekki er ætlunin að koma í veg fyrir að menn geti ekið á jöklinum. Það er sérstakt ákvæði í 15. gr. frumvarpsins um það. Gert er ráð fyrir sérstökum reglum um akstur á jökli og akstri á snjó. Ég leyfi mér að láta við það sitja að benda hv. þingmanni á það.

Annað sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom inn á varðaði friðlýsinguna, að friðlýsingin skyldi gerð með reglugerð. Hv. þm. Mörður Árnason nefndi líka hvort við ættum ekki að friðlýsa með lögum.

Það sem er sérstakt fyrir Vatnajökulsþjóðgarð er að þar er lagt fram sérstakt frumvarp um stofnun eins þjóðgarðs. Það ræðst m.a. af því hve stór þjóðgarðurinn verður og yfir hversu mikið af flatarmáli landsins hann tekur. Það gerir hann líka sérstakan að við þurftum að ná sátt um stjórnskipun þjóðgarðsins. Í þessu frumvarpi og með þessu stjórnskipulagi er ekki gert ráð fyrir stjórn Umhverfisstofnunar eins og verið hefur með aðra þjóðgarða og verður áfram með Snæfellsjökulsþjóðgarðinn.

Á hinn bóginn er gert ráð fyrir mikilli, sterkri og faglegri aðkomu Umhverfisstofnunar að undirbúningi og verndaráætlunum þjóðgarðsins. Jafnframt er gert ráð fyrir reglulegum fundum þjóðgarðsstjórnar með fulltrúum Umhverfisstofnunar. Stjórnsýslustofnunin sem hér hefur komið til umræðu hefur aðsetur í Reykjavík og hugsunin er sú að nýta alla þá fagmennsku sem þar er. En eins og venja er fara friðlýsingar fram og eru ákveðnar með reglugerð ráðherra sem hefur að öllu jöfnu lagastoð í náttúruverndarlögunum en í þessu tilviki er hún í frumvarpinu sem við ræðum um að þessu sinni.

Varðandi mörk þjóðgarðsins er ljóst að þau ráðast endanlega af samningum við landeigendur. Ferillinn í þessu máli er hugsaður þannig að Alþingi samþykki þetta frumvarp, síðan verði látið reyna á samkomulag við landeigendur og því næst ráðist formlega í stofnun þjóðgarðsins.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir innti sérstaklega eftir því hvernig hefði verið staðið að þessum viðræðum við landeigendur. Þær hafa farið fram. Menn hafa tekið misvel í málið en þær munu halda áfram eftir að búið er að samþykkja frumvarpið. Inn í þetta allt saman spilar síðan þjóðlendumálið og þær kröfugerðir sem nú eru í gangi á vissum svæðum. Það er ljóst ef einhverjum þeirra er ekki lokið þá er hvers konar samkomulag við landeigendur með fullum fyrirvara. En að öðru leyti, þegar málum er lokið, eru engin áhöld um við hvaða eiganda skuli semja. En endanleg mörk þjóðgarðsins munu ráðast af samningum við landeigendur.

Varðandi mörkin að öðru leyti kemur það fram í greinargerðinni og í skýrslu ráðgjafarnefndarinnar, á bls. 11 í athugasemdunum með frumvarpinu, hvað teljist til marka þjóðgarðsins, þ.e. hvað verði innan marka þjóðgarðsins. Ég ætla ekki að fara yfir það orð fyrir orð en hins vegar segir þar að þjóðgarðurinn taki við stofnun, það er gert ráð fyrir því af hálfu ráðgjafarnefndarinnar, í fyrsta lagi til alls Vatnajökuls. Norðan jökuls taki þjóðgarðurinn til þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og meginárfarvega Jökulsár á Fjöllum frá upphafi til ósa. Síðan segir í greinargerðinni að jafnframt væri æskilegt að árfarvegur Kreppu og landspilda að lágmarki 150–200 metrar á bökkum beggja árfarvega fylgdi með ásamt Kverkfjöllum og Krepputungu.

Til að taka af allan vafa þá hefur aldrei staðið annað til en að allt vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum og náttúrulegt rennsli árinnar væru friðað með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og þeirri friðlýsingu sem kemur í kjölfarið. En síðan hafa verið nefnd ákveðin svæði sem ekki eru innan þeirra marka sem nefnd eru í greinargerðinni. Jafnframt er á sömu blaðsíðu, í athugasemdunum á bls. 11, talin upp helstu svæði sem eru hugsanleg viðbót við Vatnajökulsþjóðgarð síðar. Það eru m.a. talin upp einhver þau svæði sem hér hafa verið nefnd í dag.

Þetta vildi ég segja, frú forseti, um þjóðgarðsmörkin. Töluverð umræða hefur orðið um þá atvinnusköpun sem af stofnun þjóðgarðsins leiðir. Ég fór líka yfir það í framsöguræðu minni, þ.e. áætlaðar auknar gjaldeyristekjur vegna fjölgunar ferðamanna, bæði innlendra og erlendra. Við erum að tala um að áætlaðar tekjur eru 3–4 milljarðar kr. vegna þessa og jafnframt gert ráð fyrir því að a.m.k. 1,5 milljarðar kr. sitji eftir hjá heimamönnum þannig að auðvitað er þetta stórt og mikið mál fyrir heimamenn.

Varðandi fjármögnun sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom m.a. inn á — hann lagði á það áherslu að standa yrði að stofnun þjóðgarðsins og öllum undirbúningi af miklum myndarskap — ætla ég að árétta að það er gert ráð fyrir því að uppbygging þjóðgarðsins, með því þjónustuneti sem nauðsynlegt er talið, muni kosta 1,150 millj. kr. Það liggur fyrir áætlun um skiptingu þess fjár til fimm ára en að þeim árum liðnum verði lokið uppbyggingu nauðsynlegs þjónustunets og þar með talið hreinlætisaðstöðu sem hv. þm. Halldór Blöndal nefndi í upphafi að nauðsynlegt væri að huga að. Hann nefndi þar sérstaklega Dimmuborgir og Dettifoss. En það er víða svo að þetta er það sem við m.a. höfum í hyggju að byggt verði upp sem hluta af þjónustuneti.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á hugsanlegan stuðning Alcoa og Landsvirkjunar við þetta verkefni. Það er ljóst að í fjárhagsáætlun, áætlun um uppbyggingu þjóðgarðsins, er aðeins gert ráð fyrir fjármagni úr ríkissjóði, 1.150 millj. kr. En m.a. Alcoa og Landsvirkjun hafa lýst áhuga sínum á því að styðja uppbyggingu þjóðgarðsins frekar. Innan ráðgjafarnefndarinnar eru hugmyndir um að styrkja megi þjóðgarðinn í gegnum einhvers konar vinafélag eða velunnarafélag þjóðgarðsins sem fleiri fyrirtæki og einstaklingar sem vilja gætu komið að, þ.e. allir þeir sem vilja leggja málefninu lið. Í umræðunni hefur enginn verið undanskilinn.

Frú forseti. Tími minn er á þrotum. Ég tel mig hafa svarað flestu því sem þingmenn hafa komið inn á í ræðum sínum. Að lokinni umræðu fer málið til umhverfisnefndar þar sem ég veit að það mun fá mikla og góða yfirferð. Miðað við þann velvilja og stuðning sem er við þetta frumvarp í þingsal og í ljósi þess að fulltrúar allra flokka hafa komið að málinu á einu eða öðru stigi vænti ég þess að þetta frumvarp verði afgreitt í mikilli sátt út frá umhverfisnefnd.