133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:43]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst, eins og kom fram í framsöguræðu minni og ég endurtók áðan, að mikil áhersla var lögð á það af hálfu heimamanna að aðkoma þeirra að stjórn og rekstri þjóðgarðsins, Vatnajökulsþjóðgarðs, yrði meiri heldur en hefur tíðkast um þjóðgarða.

Í ráðgjafarnefndinni náðist samstaða um þetta stjórnarfyrirkomulag eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Svo vil ég rifja upp það sem kom fram í umræðunni áðan, að svokölluð þingmannanefnd sem fjórir hv. þingmenn sem hér hefur verið getið í dag sátu í, hafði aðrar hugmyndir um stjórnarfyrirkomulag þjóðgarðsins, m.a. þær hugmyndir að þingmenn sætu í stjórn þjóðgarðsins, kosnir af Alþingi.

Þannig hafa ýmsar hugmyndir verið uppi en sáttin náðist um þetta í hinni stóru ráðgjafarnefnd, að haga þessu svona. Síðasta orðið á umhverfisnefndin. Loks, varðandi kæruheimildirnar sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi, vonast ég til að umhverfisnefndin skoði þær rækilega.