133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

460. mál
[10:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin þó mér hafi ekki þótt þau ítarleg eða ýkjagóð. Sömuleiðis vil ég þakka öðrum þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunum.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að með kaupum Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf. er ríkið og ríkisfyrirtæki að gera strandhögg á prentmarkaðnum. Þetta gerir það að verkum að samkeppnisstaða annarra á prentmarkaði verður miklu erfiðari, enda er Íslandspóstur miklu stærra og sterkara fyrirtæki og hefur alla burði til að nýta yfirburðastöðu sína á prentmarkaði.

Í máli hæstv. ráðherra áðan kom fram að tilgangurinn með kaupunum væri að auka hagræðingu í rekstri Íslandspósts hf. og sömuleiðis að auka starfsöryggi starfsmanna Íslandspósts hf. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst lítið gert úr starfsmönnum annarra fyrirtækja á prentmarkaði ef ríkið á að vera í því sérstaklega að styrkja starfsöryggi starfsmanna sinna sem kemur auðvitað niður á starfsöryggi annarra starfsmanna á prentmarkaði. Mér finnst að hæstv. samgönguráðherra þurfi sömuleiðis að svara því með skýrari hætti en fram kom áðan, hvort íslenska ríkið ætli að gera frekari strandhögg á prentmarkaði og hvort þetta sé eitthvað sem við megum eiga von á, jafnvel á öðrum mörkuðum.