133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

Suðurlandsvegur.

489. mál
[10:56]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er hálfömurlegt að hlusta á hæstv. ráðherra boða sífellt í allt haust og vetur að samgönguáætlun sé alveg að bresta á. Menn hafa ekki enn fengið hana í hendur. Það er vegna þess að ekki er hægt að ræða málin í heild sinni sem sífellt er verið að bera upp þessar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra. Það er heldur ekki hægt að tala um hvað verður helsta málið í komandi kosningum af þessu tagi fyrr en hægt verður að ræða þessi mál í heild. Menn þurfa auðvitað að geta skoðað sameiginlega helstu þarfir sem eru fram undan og þær eru víða. Þar vega öryggismálin auðvitað mjög þungt. En ég átel hæstv. ráðherra fyrir að vera ekki enn kominn með þessa áætlun til umræðu í þinginu þannig að alþingismenn geti farið að fjalla um hana og skoðað þau mál sem eru brýnust.