133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

Suðurlandsvegur.

489. mál
[11:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem hv. þingmaður virðist ekki skilja og mér finnst eiginlega vera kominn tími til vegna þess að hann hefur tekið þetta mál mjög oft upp í þinginu í formi fyrirspurna, óundirbúinna fyrirspurna, umræðu utan dagskrár o.s.frv.

Annars vegar vinnum við á grundvelli samgönguáætlunar, eins og framkvæmdir á flugvöllum, höfnum og vegum, og hins vegar vinnum við á grundvelli samþykkta Alþingis um fjárlög.

Tilgangurinn með því að krefjast þess að ég svari um einstök hönnunaratriði í vegagerð eða hvenær tilteknu verki eigi að ljúka sem ekki er komið í endanlegri mynd í samgönguáætlun og samþykkt af Alþingi er því miður að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur.

Ég hef vakið athygli á því að ég lít svo á að það sé einlægur vilji þingmanna Suðurkjördæmis, á sama hátt og það er einarður vilji minn, að byggja upp þennan veg eins hratt og eins vel og kostur er. Því skil ég ekki hvers vegna hv. þingmaður og þingmenn Samfylkingarinnar reyna stöðugt að gera þetta mál tortryggilegt, reyna að láta líta svo út sem samgönguráðherra sé einhver þröskuldur í vegi þessara framkvæmda. Öðru nær. Samgönguáætlun hefur sinn gang. Hún kemur í dagsljósið mjög (Forseti hringir.) fljótlega og ég vona að þingmenn taki þátt í efnislegri og málefnalegri umræðu um hana þegar þar að kemur.