133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

hætta á vegum á Vestfjörðum.

352. mál
[11:19]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er: Hvað hefur oft þurft að loka veginum á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar vegna grjóthruns og snjóflóða sl. fimm ár?

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru lokanir vegna snjóflóða og grjóthruns árið 2001 einn dagur, árið 2002 þrír dagar, árið 2003 er enginn dagur þannig, árið 2004 fjórir dagar og árið 2005 eru það 10 dagar, samtals 18 dagar. Árið 2005 sker sig nokkuð úr vegna mikillar snjóflóðahrinu á svæðinu á þeim tíma.

Í annan stað er spurt: Hvað hafa á sama tímabili oft verið gefnar úr viðvaranir til vegfarenda um hættu á hruni eða snjóflóðum?

Upplýsingum um fjölda viðvarana hefur ekki verið haldið kerfisbundið saman samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið. Þær eru af ýmsum toga og stundum gefnar af Vegagerðinni og stundum lögreglu. Viðvaranir af þessu tagi eru raunar mjög erfiðar í framkvæmd. Til skýringar má nefna nokkurra daga tímabil þar sem snjóflóð eru talin ólíkleg en ekki útilokuð.

Í þriðja lagi er spurt: Hvað hafa oft fallið snjóflóð á veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur á sama tímabili?

Til eru allgóðar upplýsingar um fjölda snjóflóða. Talið er hve oft er opnað í gegnum snjóflóð og getur stundum verið um fleiri en eitt snjóflóð að ræða. Bent skal á að oftast falla snjóflóð úr mörgum giljum í sama veðrinu þannig að dagar þegar snjóflóð falla eru mun fleiri.

Snjóflóð sem fallið hafa á vegi 2001–2005 á milli Súðavíkur og Ísafjarðar eru í Súðavíkurhlíð 100 og í Kirkjubólshlíð 33, alls 133 snjóflóð. Í Óshlíðinni er um að ræða 68 snjóflóð á þessu tímabili, 2001–2005, þannig að öllum má ljóst vera að áform um jarðgöng á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur hafa mikla þýðingu og þetta vekur að sjálfsögðu athygli á því við hvaða aðstæður íbúarnir búa þarna og almenningur kannski í landinu áttar sig þeim mun betur á því hversu mikilvægt það er að bæta þarna úr.