133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

hætta á vegum á Vestfjörðum.

352. mál
[11:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem vissulega eru athyglisverð. Það er t.d. athyglisvert hversu miklu oftar er lokað á veginum milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar núna síðari árin, enda er það auðvitað í samræmi við þær upplýsingar sem við höfum um gerð hlíðarinnar fyrir ofan veginn, þ.e. að hún er bókstaflega á leiðinni niður í sjó. Það er smám saman að hrynja úr henni og hrunið er mjög að aukast.

Það var líka mjög athyglisvert að fá upplýsingar um öll flóðin sem eru að falla á veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar, þ.e. 100 flóð á þessu árabili í Súðavíkurhlíð og 33 í Kirkjubólshlíð. Þetta undirstrikar að það þarf ekki eingöngu að setja niður jarðgöng á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur þó að það sé að sjálfsögðu mjög brýn framkvæmd heldur þarf líka að undirbúa jarðgöng og gerð þeirra sem allra fyrst á milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Það er ekki aðeins um öryggi íbúanna að tefla þarna, heldur er þannig háttað að byggingarland, í Skutulsfirði skulum við segja, er takmarkað og ekki gott víða vegna staðhátta en hins vegar er úrvalsbyggingarland bæði í Bolungarvík og Súðavík. Eðli málsins samkvæmt væri hagkvæmt að byggja upp þar t.d. íbúabyggð en fólk gæti sótt atvinnu sína inn á Ísafjörð eða frá Ísafirði inn í hin þorpin ef svo háttaði til ef samgöngur væru í lagi sem þær eru ekki í dag.