133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

þjónusta Símans á sunnanverðum Vestfjörðum.

369. mál
[11:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki voru allir hrifnir þegar ákveðið var að selja Landssíma Íslands og enn færri voru hrifnir af því að selja grunnnet Símans með og á meðal þeirra sem voru á móti því voru þingmenn Samfylkingarinnar. Okkur grunaði að þetta hefði ýmsar miður heillavænlegar afleiðingar í för með sér sem hefur svo komið á daginn. Þetta hefur haft í för með sér ýmsar afleiðingar sem okkur óraði ekki fyrir og sennilega engan. Þjónusta hefur versnað til muna. Það þekkja íbúar landsbyggðarinnar. Það þarf að bíða mun lengur en áður eftir mjög einfaldri þjónustu og viðhaldsþjónusta hefur versnað. Nú er svo komið að ég sé ekki betur en að öryggi íbúanna sé stefnt í hættu vegna þess að Síminn tilkynnti fyrir áramótin að hann ætlaði að loka starfsstöð sinni á sunnanverðum Vestfjörðum og flytja starfsemina eða þjónustukjarnann til Stykkishólms, ef ég man rétt.

Þannig háttar til eins og öllum er kunnugt að Síminn sér um einhverjar endurvarpsstöðvar útvarpsins og útvarpið er helsta öryggistæki landsmanna. Mér finnst því mjög mikið áhyggjuefni að sá sem á að sjá um viðhald á tækjum Símans, útbúnaði á Suðurfjörðum Vestfjarða, sé ekki lengur staðsettur þar á því svæði heldur þurfi hann að koma jafnvel alla leið frá Stykkishólmi nema svo vel vilji til að hann sé staddur á sunnanverðum Vestfjörðum ef eitthvað kemur upp á. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Telur ráðherra að öryggi og þjónusta við íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum verði tryggt á fullnægjandi hátt ef verður af fyrirætlun Símans um að leggja niður starfsemi á Patreksfirði?

2. Hvernig hyggst ráðherra tryggja eftirlits- og viðhaldsþjónustu við endurvarpsstöðvar útvarps á sunnanverðum Vestfjörðum?