133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

þjónusta Símans á sunnanverðum Vestfjörðum.

369. mál
[11:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem mér fundust athyglisverð. Það kom nefnilega fram í þeim að hæstv. ráðherra telur sig ekki bera ábyrgð á neinu. Hann ber ekki ábyrgð á því hvernig fjarskiptafyrirtækin haga sér og hann ber ekki ábyrgð á því hvort þau haga sinni starfsemi þannig að eðlilegt sé að áætla að þau geti brugðist við á viðunandi hátt og á viðunandi tíma ef bilun verður. Ýmist bera fjarskiptafyrirtækin sjálf ábyrgð eða þá að Ríkisútvarpið ber ábyrgð. En þetta kemur hæstv. ráðherra bara ekkert við, ekki nokkurn skapaðan hlut, jafnvel ekki þó hann hafi eins og við hin væntanlega tekið eftir því núna á haustdögum að íbúar á suðurfjörðum Vestfjarða voru án útvarps ef ég man rétt í tvo daga. Það tók viðgerðarmann einn eða tvo daga að komast á staðinn vegna þess að hann var staðsettur utan Patreksfjarðarsvæðisins. Við verðum að áætla það að einmitt á þeim tímum sem raunhæfast eða eðlilegast er að búast við því að hlutirnir bili, þ.e. í vondum veðrum og á slíkum stundum þá er erfiðast að komast á staðinn. Hæstv. ráðherra er kunnugt um að samgöngur til suðurfjarða Vestfjarða eru ekki greiðar. Þær eru hvorki greiðar yfir sjó né landleiðina, hvorki frá Stykkishólmi né frá norðurhluta Vestfjarða. Ég verð því að segja, virðulegi forseti, að mér blöskrar kæruleysi eða áhyggjuleysi hæstv. ráðherra.